WHO kallar eftir nýju nafni á apabólu

Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdarstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdarstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. AFP

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) leitar nú eftir aðstoð frá almenningi við að finna nýtt nafn á apabólusjúkdóminn sem náð hefur hraðri útbreiðslu á undanförnum mánuðum. Þetta tilkynnti stofnunin í dag.

WHO greindi frá því á dögunum að heiti sjúkdómsins væri til endurskoðunar þar sem það gæti leitt af sér fordóma í garð apa, en þeir hafa átt lítinn þátt í útbreiðslu sjúkdómsins, sem og í garð heimsálfunnar Afríku, sem dýrin eru oft bendluð við.

Ráðist á apana

Nýleg dæmi eru um það að fólk hafi ráðist á apa í Brasilíu vegna hræðslu við sjúkdóminn sem þeir eru bendlaðir við nafnsins vegna. 

„Apabóla sem smitast til manna var gefið nafn undir öðru regluverki en því sem er í gildi núna þegar kemur að því að gefa sjúkdómum nöfn,“ sagði Fadela Chaib, talsmaður WHO við fréttamenn í Genf.

„Við viljum finna nafn sem elur ekki af sér fordóma,“ bætti Chaib við og sagði að stofnunin væri opin fyrir tillögum frá fólki í gegnum vefsíðu sína.

Yfir 31 þúsund smit á heimsvísu

Sjúk­dóm­ur­inn fékk nafnið apa­bóla þegar apar á rann­sókn­ar­stofu í Dan­mörku greind­ust árið 1958 með húðsjúk­dóm sem svipaði til apa­bólu. Þó er ekki talið að sjúk­dóm­ur­inn sé upp­runn­inn frá öpum.

Samkvæmt nýjustu tölum frá CDC hafa yfir 31 þúsund manns greinst með apabólu á heimsvísu frá áramótum og 12 látið lífið. Sjúkdómurinn náði hraðri útbreiðslu í maí en einkenni hans eru meðal annars hiti, þreyta, vöðvaverkir og fleiri flensulík einkenni.

Einnig geta fylgt aumir og stækkaðir, bólgnir eitlar, til dæmis í nára eða á hálsi. Útbrotin eru fyrst flöt en síðan myndast bólur og loks blöðrur sem eru vökvafylltar eins og fram kemur á vefsíðu landlæknis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert