Stórslysi af völdum geislunar afstýrt

Kjarnorkuverið Zaporizhzhia í apríl síðastliðnum.
Kjarnorkuverið Zaporizhzhia í apríl síðastliðnum. AFP/Ed Jones

Stórslys í Evrópu af völdum geislunar hefði getað orðið í gær þegar kjarnorkuverið Zaporizhzhia í Úkraínu, sem Rússar hafa tekið yfir, aftengdist frá raforkukerfi landsins.

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, greindi frá þessu.

Það var einungis fyrir tilstuðlan vararafstöðvar sem kjarnorkuverið gat starfað áfram með eðlilegum hætti, bætti hann við.

Eldar höfðu valdið skemmdum á raforkulínum sem höfðu ofhitnað og fyrir vikið slitnaði sambandið við raforkukerfið, að sögn BBC.

Loftmynd af kjarnorkuverinu.
Loftmynd af kjarnorkuverinu. AFP

Auknar áhyggjur hafa verið uppi vegna bardaga í nágrenni við kjarnorkuverið, sem er það stærsta í Evrópu.

„Ef það hefði ekki kviknað á dísel rafölum, ef sjálfvirknin og starfsfólk okkar hefði ekki brugðist við eftir að allt varð svart værum við að takast á við afleiðingar slyss af völdum geislunar,“ sagði Selenskí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert