Tveir starfsmenn rússneska sendiráðsins fórust

Hermenn talíbana fögnuðu því í Kabúl á dögunum að eitt …
Hermenn talíbana fögnuðu því í Kabúl á dögunum að eitt ár er liðið síðan bandaríski herinn yfirgaf Afganistan. AFP/Wakil Kohsar

Tveir starfsmenn rússneska sendiráðsins í Kabúl, höfuðborg Afganistans, fórust og þó nokkrir til viðbótar særðust í sprengjuárás skammt frá sendiráðinu.

Árásin var gerð klukkan 10.50 að staðartíma [kl. 6.20 að íslenskum tíma], að sögn rússneska sendiráðsins.

Afganskir ríkisborgarar voru á meðal þeirra sem særðust.

Innanríkisráðuneyti Afganistans sagði við AFP-fréttastofuna að sjálfsvígsárásarmaður hafi verið skotinn til bana af vörðum talíbana við sendiráðið.

„Þetta var sjálfvígsárás, en áður en árásarmaðurinn náði skotmarki sínu var hann stöðvaður af öryggissveitum okkar og drepinn,“ sagði talsmaður innanríkisráðuneytisins.

Spurður nánar út í skotmarkið sagði hann að það hafi verið rússneska sendiráðið.

„Án nokkurs vafa erum við að tala um hryðjuverk, sem er algjörlega óásættanlegt,“ sagði Dmitrí Peskov, talsmaður ríkisstjórnar Rússlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert