Sjö ára látin í húsarústum

Björgunarmenn komnir að líki stúlkunnar, Ashiku Nur Fauziah, í morgun.
Björgunarmenn komnir að líki stúlkunnar, Ashiku Nur Fauziah, í morgun. AFP/Mas Agung Wilis

Sjö ára stúlka fannst látin í morgun í rústum húss á indónesísku eynni Jövu eftir jarðskjálfta þar á mánudag sem kostaði rúmlega 300 mannslíf að minnsta kosti, margra er enn saknað.

Hafði fjöldi björgunarmanna unnið að því í sólarhring að komast að stúlkunni sem lá grafin undir steinsteypu og jarðvegi í Cugenang þar sem skjálftinn átti upptök sín en styrkleiki hans mældist 5,6 stig og féllu stóreflis aurskriður á byggð, brutu niður hús og grófu fjölda manns.

„Lík hennar var þegar afhent fjölskyldunni,“ segir björgunarmaðurinn Jeksen Kolibu við AFP-fréttastofuna og var útför stúlkunnar gerð skömmu síðar að viðstöddum úrvinda slökkviliðis- og öðrum björgunarmönnum sem unnið hafa sleitulaust síðan á mánudaginn.

Skilyrði til leitar erfið

Suharyanto, forstöðumaður stórslysastofnunar Indónesíu, sem ber aðeins eitt nafn svo sem tíðkast þar í landi, sagði að enn væri ekkert vitað um afdrif 24 manneskja eftir hamfarirnar.

Forstöðumaður leitar- og björgunarmiðstöðvar landsins, Henri Alfiandi, sagði 17 lík hafa fundist í dag þrátt fyrir erfið skilyrði til leitar. Jarðvegurinn væri mjög óstöðugur auk þess sem sífellt regn gerði leitarmönnum erfitt fyrir. Þá væri hætta á eftirskjálftum sem taka þyrfti tillit til við leitina.

Vatican News

Reliefweb

mbl.is