HM gæti hafa ýtt undir vaxandi óánægju í Kína

Mótmæli hafa víða brotist út í Kína í kjölfar þess …
Mótmæli hafa víða brotist út í Kína í kjölfar þess að 10 létust í bruna í Urumqi. AFP/Hector Retamal

Heimsmeistaramót karla í knattspyrnu í Katar gæti hafa ýtt undir stigmagnandi spennu og óánægju í garð kínverskra stjórnvalda vegna langvarandi og harðra sóttvarnaaðgerða þar í landi. Prófessor í kínverskum fræðum segir útsendingu af úrslitakeppninni, þar sem áhorfendapallarnir eru þéttsetnir af grímulausum fótboltaáhugafólki, ekki hafa fallið vel í kramið hjá Kínverjum sem hafa þurft að sæta ströngum samkomutakmörkunum síðastliðin tvö ár.

„Fólk er að horfa á HM og sér að þarna eru allt í einu þúsundir manna saman komnir allir grímulausir að skemmta sér og lifa eðlilegu lífi. Því hefur alltaf verið haldið fram af kínverskum stjórnvöldum að þeirra leið sé árangursríkust og best. Það virðist nú orka tvímælis þegar að fólk sér að annars staðar í heiminum geti fólk leyft sér að lifa eðlilegu lífi. Ég held að það hafi líka sett eitthvað í gang,“ segir Geir Sigurðsson, prófessor í kínverskum fræðum við Háskóla Íslands.

Snúist upp í beina andstöðu við flokksræðið

Mótmæli hafa víða brotist út í Kína í kjölfar þess að 10 manns létst í bruna í fjölbýlishúsi í borginni Urumqi í Xinjiang-héraðinu á fimmtudaginn í síðustu viku. Margir hafa kennt stjórnvöldum og hörðum samkomutakmörkunum um hve illa fór.

Atburðurinn vakti mikla reiði og varð kveikjan að sjaldséðum Covid-mótmælum víða um landið. Mótmæli eru að vísu ekki óalgeng í Kína, að sögn Geirs, en þessi virðast þó vera annars eðlis.

AFP/Hector Retamal

 „Þessi mótmæli eru óvanaleg að því leytinu til að þau snúast fyrst og fremst um aðgerðir gegn Covid sem fólki hefur fundist vera of harðar og haft of mikil áhrif á almenning og stöðu efnahagsmála en síðan höfum við séð að einhver af þessum mótmælum hafa snúist upp í beina andstöðu við flokksræðið og jafnvel Xi Jinping sjálfan, sem að er tiltölulega óvanalegt, að þær fari út í pólitíska sálma,“ segir Geir.

„Það er yfirleitt verið að mótmæla einhverju mjög tilteknu og reyna að fá úrlausn ákveðinna mála en hér erum við að sjá mótmæli sem að hluta til beinast beinlínis að því að flokkurinn er einráður í Kína og þar sem hreinlega er krafist að Xi Jinping [forseti Kína] láti af störfum. Það er mjög óvanalegt.“

Fólk komið að þolmörkum

Frá upphafi Covid-heimsfaraldursins hafa stjórnvöld í Kína beitt hörðum aðgerðum til að hefta útbreiðslu smita í landinu. Oft og tíðum hefur útgöngubanni verið lýst yfir þegar örfá smit greinast í borgum en yfirlýst markmið stjórnvalda hefur verið að útrýma Covid-19 í landinu. 

Undanfarið hefur smitum fjölgað töluvert, með tilheyrandi samkomutakmörkunum, en um 30 þúsund hafa verið að greinast á hverjum degi.

„Fólk er á marganhátt komið að þolmörkum mjög víða um land. Það hefur ekki mátt koma upp eitt smit í sumum borgum og þá er öllu skellt í lás. Fólk virðist hafa þjáðst mjög mikið vegna þess. Ég held að þessi dauðsföll í Urumqi hafa sett eitthvað í gang. Þótt að það hafi áður ekki brotist út í einhver mótmæli þá hafa þessar aðgerðir gegn Covid verið mjög umdeildar og það eru margir sem líta svo á að það hafi verið beitt alltof hörðum aðgerðum.“

Að sögn Geirs er þó erfitt að segja til um umfang mótmælanna í Kína enda er þetta fjölmennasta land heims. 

„Þó að við séum að sjá mótmæli hér og þar er ekki þar með sagt að það sé komin kerfisbundin mótmæla alda í Kína, heldur kannski eru þetta einangruð tilvik. Við vitum ekki hvað kemur út úr þessu.“ 

Netlögreglan virk

Eins og áður hefur komið fram telur Geir að HM í knattpsyrnu hafi einnig átt hlut í vaxandi óánægju meðal íbúa. Fram hefur komið í erlendum fréttamiðlum að ríkisreknir miðlar í Kína hafi gripið til þess ráðs að eiga við sjónvarpsefnið af mótinu svo grímulausir aðdáendur í stúkunni sjáist ekki.

„Stjórnvöld reyna alltaf að koma í veg fyrir spennu í samfélaginu þannig þau reyna þá að draga úr henni og beita þá þessum aðferðum að ritskoða eða leyfa ekki birtingu efnis um eitthvað sem gæti sett fólk í ójafnvægi.“

Auk þess að eiga við myndefni af HM hafa stjórnvöld einnig verið ötul við að fjarlægja myndskeið og myndir á samfélagsmiðlum af mótmælunum sjálfum. Geir segir það alls ekki koma á óvart.

„Netlögreglan svokallaða í Kína er mjög virk og býr yfir mjög góðum tækjum til þess að fylgjast með og fjarlægja efni af samfélagsmiðlum og öðrum miðlum mjög fljótt. Þessar fréttir eða þessi myndbönd fá yfirleitt ekki að hanga inni mjög lengi. Þau eru mjög var um sig stjórnvöld og taka jafnvel út hluti sem einhverjir telja að gætu hugsanlega leitt til þess að óánægja grípi um sig meðal almennings. Það er alltaf reynt að koma í veg fyrir að eitthvað helli olíu á eldinn.“

Maður handtekinn á mótmælum í Sjanghæ
Maður handtekinn á mótmælum í Sjanghæ AFP/Hector Retamal
mbl.is