Meira kapp lagt á bólusetningar í kjölfar mótmæla

Frá mótmælum í Sjanghæ í Kína í gær.
Frá mótmælum í Sjanghæ í Kína í gær. AFP/Hector Retamal

Kínversk yfirvöld hafa heitið því að flýta fyrir bólusetningum eldra fólks gegn Covid-19 en metfjöldi smita hefur greinst dag frá degi síðastliðna viku.

Yfirlýsingin kemur einnig í kjölfar umfangsmikilla mótmæla sem brotist hafa út víða um landið þar sem mótmælendur hafa lýst yfir mikilli óánægju gagnvart hörðum samkomutakmörkunum og Xi Jinping, forseta Kína. Er þess m.a. krafist að forsetinn segi sig frá embætti og að fallið verði frá harðlínustefnu yfirvalda sem miðar að því að útrýma Covid-smitum í landinu.

Lágt bólusetningarhlutfall 

Útgöngubanni og hörðum samkomutakmörkunum hefur ítrekað verið beitt þegar að fáein smit greinast í borgum og bæjum, en sú nálgun hefur kallað fram vaxandi óánægju meðal Kínverja.

Talið er að lágt bólusetningarhlutfall í Kína, sérstaklega meðal eldra fólks, sé ein af helstu ástæðunum að baki þess að yfirvöld hafi verið treg til að slaka á takmörkunum. 

Heilbrigðisnefnd Peking hét því í dag að flýta fyrir bólusetningum fólks á aldrinum 80 ára og eldri. Einnig verði haldið áfram með þá vinnu sem miðar að því að hækka bólusetningarhlutfall fólks á aldrinum 60 til 79 ára.

mbl.is