Sá fyrsti í hundrað ár sem nær ekki kjöri

Kevin McCarthy komst í sögubækurnar í gær.
Kevin McCarthy komst í sögubækurnar í gær. AFP/Mandel Ngan

Kevin McCarthy, leiðtogi Repúblikanaflokksins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, komst í gær í sögubækurnar þegar hann náði ekki kjöri sem forseti fulltrúadeildarinnar í fyrstu atkvæðagreiðslunni sem fór fram. Þingmaðurinn þurfti að minnsta kosti 218 atkvæði til að tryggja sér embætti en það tókst honum ekki í þrígang. Þinginu hefur nú verið frestað.

Slíkur atburður hefur ekki verið algengur undanfarin ár en liðin eru hundrað ár frá því að forseti fulltrúadeildar hlaut ekki kjör í fyrstu atkvæðagreiðslu. New York Times greinir frá.

Er það mat sérfræðinga að jafnvel þó McCarthy tryggi sér embætti þá marki þessi niðurlæging upphafið að stormasömum tveimur árum fyrir Repúblikanaflokkinn.

Repúblikanar náðu naumlega meirihluta þingmanna í fulltrúadeildinni í kosningunum sem fóru fram í nóvember á síðasta ári. Til að tryggja sér embætti þurfti McCarthy því að treysta á að nær öll atkvæði repúblikana féllu hans megin. Því miður fyrir hann gekk það ekki eftir.

„Kevin McCarthy hefur ekki eignast vini innan ákveðinna raða flokksins en hann hefur eignast þónokkra óvini,“ segir ónefndur starfsmaður flokksins í samtali við BBC. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka