McCarthy leiðtogi repúblikana í fulltrúadeild

Kevin Mccarthy.
Kevin Mccarthy. AFP

Kevin McCarthy var í gær kjörinn leiðtogi Repúblikanaflokksins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.

Hann er því líklegt efni flokksins í forsetaembætti fulltrúadeildarinnar, þegar Bandaríkjaþing verður sett eftir að niðurstöður þingkosninganna hafa verið staðfestar.

Repúblikanar kusu sér leiðtoga í fulltrúadeild fyrir luktum dyrum í gær þar sem McCarthy bar sigur úr býtum með 188 atkvæðum. Til þess að verða kjörinn forseti fulltrúadeildar mun McCarthy þurfa 218 atkvæði þegar 435 þingmenn fulltrúadeildar kjósa í janúar.

McCarthy var fyrst valinn leiðtogi repúblikana í fulltrúadeild árið 2018 þegar flokkurinn var í minnihluta í fulltrúadeild en nú virðist sem svo að flokkurinn muni vera í meirihluta á komandi kjörtímabili.

Þegar lýst yfir sigri repúblikana

Ólíklegt þykir að núverandi forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, Nancy Pelosi, haldi stöðu sinni en tölfræðiteymi Decision Desk HQ, sem margir miðlar nýta, hefur þegar lýst yfir sigri repúblikana í fulltrúadeildinni.

Það er að flokkurinn sé tölfræðilega búinn að tryggja sér 218 þingmenn og þar með meirihluta fulltrúadeildarinnar. 

mbl.is