Um 70 lögreglumenn særðir eftir mótmæli

Frá mótmælunum í Þýskalandi á laugardaginn.
Frá mótmælunum í Þýskalandi á laugardaginn. AFP/Ina Fassbender

Um það bil 70 lögreglumenn hafa særst í mótmælum í þýsku þorpi sem verið er að rífa til að rýma fyrir stækkun kolanámu. Í aðgerð sem hófst á miðvikudag hafa hundruð lögreglumanna fjarlægt aðgerðasinna frá þorpinu Luetzerath í vesturhluta Þýskalands.

Þúsundir mótmælenda komu saman í þorpinu í gær, þar á meðal sænska baráttukonan Greta Thunberg. Sumir mótmælenda lentu í átökum við lögreglu.

Aðgerðasinnar sökuðu lögreglu um að nota kylfur, piparúða, hunda og hesta gegn þeim, en að minnsta kosti 20 aðgerðasinnar hafa verið fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar. Sumir þeirra voru ýmist barðir í höfuðið eða í magann af lögreglu, að sögn Birte Schramm, læknis í hópnum.

Þúsundir mótmælenda komu saman í þorpinu í gær, þar á …
Þúsundir mótmælenda komu saman í þorpinu í gær, þar á meðal sænska baráttukonan Greta Thunberg. AFP/Ina Fassbender

Um 150 sakamál

Skipuleggjendur telja að mótmælendur hafi verið alls 35 þúsund á laugardag, en lögregla segir töluna vera 15 þúsund. Ástandið hafi verið heldur rólegra í dag, að sögn lögreglu.

Verið er að rífa þorpið til að rýma fyrir stækkun kolanámu, sem þegar er ein sú stærsta í Evrópu. Náman er rekin af orkufyrirtækinu RWE.

Lögregla hefur hafið rannsókn á um 150 sakamálum vegna mótmælanna, meðal annars vegna mótspyrnu gegn lögreglumönnum, eignaspjalla og friðarrofs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert