Banvæn ákvarðanafælni

Þýskir Leopard 2-skriðdrekar. Selenskí Úkraínuforseti telur 300 slíka geta snúið …
Þýskir Leopard 2-skriðdrekar. Selenskí Úkraínuforseti telur 300 slíka geta snúið taflinu þjóð hans í hag. Ljósmynd/Bundeswehr Fotos

„Hver dagur af töfum kostar Úkraínumenn lífið,“ skrifar Mikhaíló Pódoljak, einn ráðgjafa Volódímírs Selenskís Úkraínuforseta, á Twitter og gagnrýnir þar hve tvístígandi vesturveldin séu við að senda Úkraínumönnum vopnabúnað til að styrkja þá gegn rússneska innrásarhernum.

Þýsku Leopard 2-skriðdrekarnir eru ókomnir, sem varnarmálaráðherrar Þýskalands og Úkraínu hafa átt viðræður um að sendir yrðu til síðarnefnda landsins og gætu orðið vendipunktur þar sem þeir þarfnast lítils viðhalds og eru sérstaklega hannaðir til að mæta T-90-skriðdrekum Rússa á vígvellinum.

Þurfa að hrifsa landsvæði til baka

Fundur úkraínska varnarmálaráðherrans Oleksí Resníkov með vestrænum bandamönnum í Ramstein í Þýskalandi í gær blés Resníkov von í brjóst en þar var niðurstaðan að Úkraínumönnum yrðu látnir í té bryndrekar auk loftvarnakerfa og skotfæra.

Í dag sagði Júrí Sak, ráðgjafi Resníkovs, að vestrænu ríkin þyrftu að skilgreina á nýjan leik hvað þau ættu við með því að standa með Úkraínu, það táknaði ekki bara að tryggja stöðugleika úkraínsks herstyrks í fremstu víglínu.

„Til þess að geta varið land okkar þurfum við að vera í stakk búnir til að ná landsvæðum á okkar vald á nýjan leik og frelsa þau. Til þess þurfum við öfluga skriðdreka og brynvarin ökutæki,“ sagði Sak.

Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands, sagði skoðanir þýskra stjórnvalda skiptar þótt ekki bærust skipanir frá Berlín um að láta skriðdrekana ekki af hendi. Pólverjar og Finnar fara sjálfkrafa í biðstöðu með Þjóðverjum, þrátt fyrir að vilja gjarnan láta Úkraínumönnum Leopard-dreka í té þar sem þýsk lög banna kaupendum slíkra skriðdreka að afhenda þá öðrum ríkjum nema með samþykki þýskra stjórnvalda.

2.000 Leopard-drekar í vöruhúsum

Selenskí forseti lofaði Atlantshafsbandalagsríkin fyrir hernaðaraðstoð þeirra en sagði enn fremur að Úkraínumenn yrðu að berjast fyrir því að fá nýlega skriðdreka afhenta. „Daglega ítrekum við að hér séu engir valkostir, ákvörðun um skriðdrekana verður að taka,“ segir forsetinn.

Meginuppistaðan í skriðdrekaflota Úkraínumanna eru úr sér gengnir sovéskir skriðdrekar sem eiga ekki roð í nýja rússneska dreka. Hins vegar standa rúmlega 2.000 Leopard-skriðdrekar í vöruhúsum vítt og breitt um Evrópu. Telur Selenskí að 300 slíkir gætu snúið taflinu Úkraínumönnum í hag.

BBC

Ukranews

NPR

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert