Dómsmálaráðuneytið kærir Google fyrir einokunartilburði á auglýsingamarkaði

Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, Merrick Garland á blaðamannafundi í dag þar sem …
Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, Merrick Garland á blaðamannafundi í dag þar sem málsóknin gegn Google var tilkynnt. AFP/Stefani Reynolds

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna kærði fyrirtækið Google í dag fyrir einokunartilburði á auglýsingamarkaðinum á netinu og hófu þar með aðra lagalega sókn gegn tæknirisanum í Kaliforníu.

Í ákærunni er Google sakað um að hafa með ólögmætum hætti viðhaldið einokun sem hefði „spillt lögmætri samkeppni í auglýsingatækniiðnaðinum“.

AFP/Noah Berger

„Google hefur beitt samkeppnishamlandi og ólögmætum aðferðum til að útiloka eða draga verulega úr hvers kyns samkeppni sem gæti haft áhrif á yfirburðastöðu fyrirtækisins á auglýsingamarkaði,” segir í ákærunni.  

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hóf málið í samvinnu við átta ríki: Kaliforníu, Colorado, Connecticut, New Jersey, New York, Rhode Island, Tennessee og Virginíu.

Stjórna auglýsingamarkaðnum

Kjarni málssóknarinnar er yfirburðastaða Google í auglýsingatæknibransanum, og tækni þeirra sem fyrirtæki þurfa að reiða sig á til auglýsa á netinu.

Saksóknararnir sögðu að Google „stjórni nú“ þessum gífurlega mikilvæga geira sem þýðir að önnur vefsvæði fá minni auglýsingatekjur á sama tíma og  auglýsendur greiða hærri fjárhæðir fyrir auglýsingar og nýsköpun sé kæfð vegna skorts á raunverulegri samkeppni.

„Ásókn Google í óheyrilegan hagnað hefur valdið útgefendum og auglýsendum á netinu og bandarískum neytendum miklum skaða,“ sagði Lisa Monaco, aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna, í yfirlýsingu frá ráðuneytinu í dag.

Kæran í málinu kemur í kjölfar málaferla ríkisins gegn Google sem hafa talið fyrirtækið einoka leitarmarkaðinn á netinu, og auglýst eigin auglýsingatæknilausnir og smáforrit á Android farsímavefnum.

Segja auglýsingamarkaðinn „samkeppnishæfan“

Google hefur harðneitað því að um einokunartilburði sé að ræða og segir að meðal keppinauta á auglýsingamarkaði á netinu séu Amazon, Meta, sem rekur Facebook og Whatsapp, og Microsoft.

„Í málaferlum dagsins frá dómsmálaráðuneytinu er reynt að velja sigurvegara og þá sem tapa í hinni áköfu samkeppni sem ríkir í auglýsingatæknigeiranum,“ sagði talsmaður Google í tölvupósti.

Talsmenn Google segja kæruna byggjast á gallaðri röksemdafærslu sem myndi hægja á nýsköpun, hækka auglýsingagjöld og gera þúsundum  lítilla fyrirtækja og útgefenda erfiðara fyrir að vaxa.

Samtök tölvu- og fjarskiptaiðnaðarins, létu hafa eftir sér að við málshöfðunina hefði ekki verið tekið tillit til keppinauta sem starfa ekki á netinu og hafa meðal annars auglýsingar í dagblöðum, sjónvarpi og útvarpi.

Hvatt til að leysa pólitíska pattstöðu

„Hugmynd stjórnvalda um að stafrænar auglýsingar séu ekki í samkeppni við prent, útsendingar og auglýsingaskilti utandyra stenst enga skoðun,“ sagði talsmaður Samtaka tölvu- og fjarskiptaiðnaðarins  í yfirlýsingu í dag.

AFP/Chris Delmas

Allir stærstu alþjóðlegu tæknirisarnir eru í Bandaríkjunum, Google, Apple, Amazon og Meta eru sem kunnugt er í yfirburðastöðu á sínu markaði. Yfirvöld hafa að miklu leyti reitt sig á dómstóla til að reyna að takmarka yfirburði þessara fáu fyrirtækja á markaði.  

Fyrr í mánuðinum hvatti Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, lögmenn repúblikana og demókrata til að leysa margra ára pólitíska pattstöðu og setja strangari lög um starfsemi tæknirisanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert