Leyfa sveppi og MDMA í lækningaskyni

Trjónupeðla, Psilocybe semilanceata, er ein af um 250 tegundum sveppa …
Trjónupeðla, Psilocybe semilanceata, er ein af um 250 tegundum sveppa sem innihalda psilocybin. Ljósmynd/Wikipedia.org

Áströlsk stjórnvöld hyggjast frá og með júlímánuði leyfa til læknisfræðilegra nota sveppi, sem innihalda efnið psilocybin, og efnið MDMA, öðru nafni 3,4-metýlendíoxýmetamfetamín, sem er meginuppistaðan í flestum e-töflum.

Þetta tilkynnti Meðferðarlyfjastofnun landsins, Therapeutic Goods Administration, í gær og kvað notkunina, sem leyfð verður, bundna við meðhöndlun sjúklinga sem þjást af þunglyndi og áfallastreitu.

Eftir gildistöku nýja regluverksins verður geðlæknum kleift að skrifa upp á framangreind efni fyrir þá sem á þurfa að halda og rökstyður Meðferðarlyfjastofnunin þessa tilslökun með því að efnin hafi reynst „tiltölulega örugg“ við notkun í klínísku umhverfi auk þess sem í verkun þeirra fælist „breytt vitundarástand“ (e. altered state of consciousness) sem linað gæti þjáningar sjúklinga.

Binda vonir við notkun gegn fleiri röskunum

„Fjöldi fólks þjáist af áfallastreituröskun og þunglyndi, einkum fyrrverandi hermenn og fólk sem starfað hefur við bráðaþjónustu,“ segir Mike Musker, sem rannsakar sjálfsvíg við Háskólann í Suður-Ástralíu, við AFP-fréttastofuna. Segir hann hefðbundin geð- og þunglyndislyf oft nýtast þessum hópum takmarkað, jafnvel ekki neitt.

Þrátt fyrir að notkun efnanna verði bundin við sjúklinga sem þjást af framangreindum röskunum til að byrja með binda rannsakendur og aðrir talsmenn lyfjameðferðar af þessu tagi vonir við að er fram líða stundir verði einnig leyfilegt að nota efnin til meðferðar við áfengissýki, áráttu- og þráhyggjuröskun og átröskunum.

Auk ástralskra stjórnvalda hafa bandarísk og kanadísk stjórnvöld einnig ákveðið að leyfa notkun MDMA og psilocybins á sama vettvangi.

ABC

The Australian

The Guardian

mbl.is