Fundinn eftir hálft ár í felum

Hermaður fannst í felum eftir sex mánuði í Karkív. Hann …
Hermaður fannst í felum eftir sex mánuði í Karkív. Hann segist hafa verið þar síðan Rússar lögðu svæðið undir sig. Ljósmynd/Lögreglan í Karkív

Rússneskur hermaður sem hefur verið í felum í Karkív-héraði síðastliðna sex mánuði hefur verið hnepptur í varðhald, að sögn lögregluyfirvalda í Úkraínu.

Frá þessu greinir breska ríkisútvarpið, BBC.

Hermaðurinn, sem er 42 ára gamall, var stöðvaður af úkraínskum hermönnum við borgina Kúpíansk í gær.

Úkraínumenn náðu Karkív aftur á sitt vald í september eftir að Rússar höfðu lagt borgina undir sig.

Rússneski hermaðurinn sagði við lögregluna í Karkív að hann hefði falið sig í mannlausum byggingum síðan Úkraína náði aftur völdum í borginni. 

Maðurinn sem fannst í felum verður yfirheyrður áfram af lögreglu.
Maðurinn sem fannst í felum verður yfirheyrður áfram af lögreglu. Ljósmynd/Lögreglan í Karkív

Maðurinn var ekki klæddur herbúningi en lögreglan í Karkív komst að því að hann væri í rússneska hernum og ætti lögheimili í nágrenni Moskvu, höfuðborgar Rússlands. 

Margar orrustur hafa farið fram á Karkív-svæðinu síðan innrásin hófst. Nokkrum íbúum á svæðinu var nýlega gert að yfirgefa svæðið af úkraínskum stjórnvöldum vegna „óstöðugs öryggisástands“ sökum árása rússneskra hersveita. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert