Nærri milljón á flótta eða ver­gangi í Súdan

Fólk komið til Eþíópíu eftir flótta frá Súdan.
Fólk komið til Eþíópíu eftir flótta frá Súdan. AFP/Amanuel Sileshi

Vegna átakanna í Súdan hafa nú um tvö hundruð þúsund flúið land. Flóttamannastofnun sameinuðu þjóðanna segir einnig að um sjö hundruð þúsund hafi flúið heimili sín og fært sig um set innan landamæra landsins.

Átökin í landinu brutust út þann 15. apríl síðastliðinn og hafa því staðið í tæpan mánuð. Um 750 hafa látið lífið og fimm þúsund særst í átökunum. Sextíu þúsund hafa lagt á flótta til nágrannaríkisins Tsjad en talskona Flóttamannastofnunarinnar segir aðstæðurnar krefjandi þar sem flóttafólk fari gjarnan til landa sem eigi þegar um sárt að binda vegna hlýnunar jarðar og matarskorts.

„Nærri níutíu prósent flóttafólks eru konur og börn, þar á meðal margar ófrískar konur,“ er haft eftir Olgu Sarrado, talskonu Flóttamannastofnunarinnar.

Þá hafi hinar stríðandi fylkingar lofað því á fimmtudag að mannúðarsjónarmið verði virt og borgarar verndaðir. Vonast sé til þess að hlutir eins og heilbrigðisþjónusta, vatn og rafmagn fái að rata til þeirra sem þurfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert