Drengur skotinn eftir að hann hringdi á neyðar­línuna

Hér má sjá drenginn ásamt lögmanni fjölskyldunnar Carlos Moore.
Hér má sjá drenginn ásamt lögmanni fjölskyldunnar Carlos Moore. Ljósmynd/Twitter/Attorney Carlos Moore

Ellefu ára drengur var skotinn af lögregluþjóni eftir að hann hringdi í neyðarlínuna þegar barnsfaðir móður hans kom æfur inn á heimili fjölskyldunnar í Indianola í Mississippi-ríki í Bandaríkjunum snemma morguns á laugardag.

Þegar lögregluþjónar komu á staðinn í kjölfar símtalsins var heimilisfólk beðið að koma út úr húsinu og drengurinn var á leiðinni að stofu heimilisins þegar hann var skotinn.

Þessu greinir CNN frá.

Drengurinn, sem heitir Aderrien, er sagður hafa verið beðinn af móður sinni að hringja í neyðarlínuna þegar barnsfaðir hennar kom inn. Þá hafi lögreglan komið að útidyrum hússins með byssur uppi.

Aderrien blæddi mikið eftir að hann var skotinn en annað lunga hans féll saman og var hann settur í öndunarvél. Þá á skotið einnig að hafa valdið því að hann var með brotin rifbein og svöðusár á lifrinni. Drengurinn komst þó heim af sjúkrahúsi í þessari viku og er á batavegi.

Sleppt vegna þess að kæra var ekki fyrir hendi 

Fjölskylda drengsins hefur kallað eftir því að lögregluþjónninn sem skaut Aderrien yrði rekinn en hann var settur í launað leyfi frá störfum á meðan rannsókn á atvikinu fer fram.

Barnsfaðirinn var handtekinn samdægurs og settur í varðhald lögreglu, honum á þó að hafa verið sleppt vegna þess að kæra lá ekki fyrir.

Haft er eftir móður drengsins þar sem hún spyr: „Hvenær átti ég að hafa tíma í það, ég var á spítalanum með syni mínum?“ Þá haldi hún því einnig fram að enginn lögregluþjónn hafi komið á spítalann af stöðinni eða talað við hana vegna málsins.

mbl.is