Svört ský yfir Grænlandi

Lögreglan í Grænlandi birti mynd af hinum dökku skýjum á …
Lögreglan í Grænlandi birti mynd af hinum dökku skýjum á Facebook. Ljósmynd/Facebook

Dökk ský og brunalykt lágu yfir vesturströnd Grænlands í gær. Íbúar hafa sett sig í samband við lögreglu og leitað uppruna brunalyktarinnar. Hún á rætur sínar hins vegar ekki að rekja til Grænlands, þar sem fá tré eru og lítið af grónum svæðum. 

Brunalyktin og hin dimmu ský eru frá Kanada og Bandaríkjunum, þar sem skógareldar hafa brunnið nokkurn vegin linnulaust síðustu mánuði. 

Danska ríkisútvarpið fjallaði um ástandið og ræddi við veðurfræðinginn Jens Lindskjold, sem vinnur hjá dönsku veðurstofunni í Nuuk.

Vindáttin ræður

Lindskjold segir þetta allt snúast um vindáttina. „Kaldir vindar eru búnir að blása í nokkurn tíma frá norðurhluta Kanada, þar sem engir gróðureldar eru. Nú hefur áttin snúist og suðvestlægir vindar eru ríkjandi. Þá kemur reykurinn með vindum,“ sagði Lindskjold. 

Íbúar á Grænlandi hafa tilkynnt um reykinn til Veðurstofunnar og forvitnast um hver uppruninn sé. 

„Eðlilega leitar fólk til þeirra sem það telur að hafi svörin. Og þegar kemur að himnunum, þá eru það oft veðurfræðingar. Bæði stjórnvöld og fjölmiðlar hafa haft samband við okkur til að skilja hvað er að gerast og hvort eitthvað sé hægt að gera,“ sagði Lindskjold.

Geta lítið gert

Hann segir veðurfræðinga lítið geta gert í reyknum, sem var sérstaklega greinilegur á mánudagsmorgun í Nuuk. 

„Það tók lengri tíma að birta til á mánudagsmorgun, þó sólin væri risin. Og maður fann aðeins lykt. Það var smá eins og að vera á ströndinni á sumardegi í Danmörku, þar sem fólk er að grilla hér og þar. En það var ekki eins og maður gæti ekki andað,“ segir hann. 

Mun koma aftur fyrir

Síðdegis á mánudag færðist reykurinn suður, en Lindskjold á von á því að hann komi aftur yfir Grænland á morgun. Gert er ráð fyrir að vindáttin breytist svo á fimmtudag. 

Fjöldi gróðurelda hefur brunnið í Kanada á þessu ári og hefur reykinn áður lagt fyrir Grænlands. 

„Eldarnir loga enn í Kanada svo ég efast um að þetta sé í síðasta skipti sem við upplifum þetta veðurfyrirbæri í Grænlandi,“ sagði Lindskjold. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert