Kominn í hendur Bandaríkjamanna

Travis King er nú í haldi bandarískra stjórnvalda í Kína.
Travis King er nú í haldi bandarískra stjórnvalda í Kína. AFP

Travis King, bandaríski hermaðurinn sem hljóp yfir landamærin til Norður-Kóreu, er kominn í hendur Bandaríkjamanna í Kína. Stjórnvöld í Bandaríkjunum staðfesta þetta.

Norður-Kóreski ríkisfjölmiðilinn KCNA greindi svo frá fyrr í dag að stjórnvöld ætluðu sér að vísa honum úr landi en ekki var ljóst hvenær eða hvernig.

Hinn 23 ára King hefur verið í haldi í Norður-Kóreu frá því að hann hljóp ólöglega yfir landamærin frá Suður-Kóreu.

Óljóst er hvernig ástand Kings er eftir vistina í Norður-Kóreu.

King hefur verið í bandaríska hernum síðan 2021. Var hann í verkefni í Suður-Kóreu þegar hann var handtekinn sakaður um líkamsárás. Losnaði hann úr fangelsi þar í landi 10. júlí og nokkrum dögum síðar var hann í hópi ferðamanna með leiðsögumanni þegar hann ákvað að hlaupa yfir landamærin.

KCNA sagði að stjórnvöld í Norður-Kóreu hefðu yfirheyrt hann og sögðu að hann hefði flúið úr hernum vegna ómannúðlegrar framkomu hersins og kynþáttafordóma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert