Skemmdarvargar felldu eitt frægasta tré Bretlands

Hér má sjá tréð fræga á ljósmynd sem var tekin …
Hér má sjá tréð fræga á ljósmynd sem var tekin í júní. AFP

Eitt frægasta tré Bretlandseyja, sem hefur stundum verið kallað tré Hróa hattar, hefur verið fellt vísvitandi. 

Tréð sem stóð við Hadríanusarmúrinn, sem er grjótgarður frá tímum Rómverja, var fellt í skjóli nætur að sögn talsmanna þjóðgarðsins í Norðymbralandi, sem er á norðausturhluta Englands. Grunur leikur á að þarna hafi skemmdarvargar verið á ferð.

AFP

Tréð var þekkt kennileiti svæðisins og stað á afar fallegum stað. Það var m.a. notað í kvikmyndinni Robin Hood: Prince Of Thieves með Kevin Costner, sem kom út árið 1991. 

Ljósmyndir hafa verið birtar á samfélagsmiðlum sem sýna tréð liggja við múrinn og trjástubbinn. 

Lögreglan á svæðinu segir að rannsókn sé hafin og nú sé verið að skoða hvort eitthvað saknæmt hafi átt sér þarna stað. Ljóst þykir að þarna hafi keðjusög verið notuð til verknaðarins. 

Tréð stóð eitt í dæld á mjög fallegum stað og …
Tréð stóð eitt í dæld á mjög fallegum stað og hefur það verið myndað í bak og fyrir í gegnum áratugina; og jafnvel verið bakgrunnur Hollywood-kvikmynda. AFP

Mary Foy, sem er þingmaður á svæðinu, segir að þetta séu skelfileg tíðindi. Þetta fræga tré og kennileiti hafi verið eftirlæti margra. 

„Virkilega dapur dagur fyrir hið íkoníska Sycamore-skarð, sem mun valda miklu uppnámi víða um land; og jafnvel um allan heim,“ bætti hún við. 

Hér fyrir neðan má sjá atriði úr kvikmyndinni um Hróa hött sem er tekið upp við tréð fræga og Hadríanusarmúrinn. mbl.is