Heilu fjölskyldurnar fundist myrtar

Ísraelskir hermenn að störfum í Kfar Aza í dag.
Ísraelskir hermenn að störfum í Kfar Aza í dag. AFP/Jack Guez

„Þetta er ekki stríð, þetta er ekki vígvöllur. Þetta er fjöldamorð,“ segir Itai Veruv, hershöfðingi í ísraelska hernum. Veruv hefur í dag lýst því hvernig aðkoman er í Kfar Aza eftir árásir Hamas-samtakanna.

Segir hann Hamas hafa tekið líf fjölda barna í árásunum. 

„Þú sérð börn, mæður, feður, inni í svefnherbergjum sínum, inni í öryggisherbergjum sínum og hvernig hryðjuverkamennirnir myrtu þau,“ sagði Veruv við Reuters í dag. 

Ekki eitthvað sem gerist á okkar tímum

Reuters greinir frá því að lík liðsmanna Hamas hafi einnig fundist í bænum, við hlið ísraelskra íbúa. 

Hús hafa brunnið til grunna, húsgögn liggja á rúi og stúi í bænum sem varð hvað verst úti í árásum Hamas. 

„Þetta er eitthvað sem ég hef aldrei séð á minni lífsleið. Þetta er það sem við ímynduðum okkur að afar okkar og ömmur sáu í helförinni í Evrópu og á öðrum stöðum. Þetta er ekki eitthvað sem gerist á okkar tímum,“ sagði Veruv. 

Ísraelskir hermenn gengu í dag hús úr húsi til þess að sækja lík látinna borgara. Ekki var hægt að sækja líkin fyrr vegna hættu á frekari árásum. „Segið heiminum frá því sem þið sjáið hér í dag,“ kallaði einn hermannanna til fréttamanna. 

Þúsund Ísraelsmanna hafa látist í átökunum hið minnsta og 800 hafa látist á Gaza-svæðinu. Átökin hófust á laugardag er Hamas-samtökin gerðu óvænta árás á Ísrael. 

Heilu fjölskyldurnar hafa fundist myrtar.
Heilu fjölskyldurnar hafa fundist myrtar. AFP/Jack Guez
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert