Stríðsverk sem endurspegla forna illsku

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. AFP/Christophe Archambault

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB), sagði að morð Hamas-samtakanna á óbreyttum borgurum í Ísrael væru kaldrifjuð stríðsverk sem endurspegli forna illsku.

„Við þurfum að vera afdráttarlaus í skilgreiningum okkar á slíkum hryllingi. Það getur aðeins verið eitt svar við slíku. Evrópa stendur með Ísrael og styður rétt Ísraelsríkis til að verja sig og borgara sína að fullu.“

Fjárstuðningur verði endurskoðaður

Von der Leyen ávarpaði fund evrópskra framkvæmdastjórna í dag. Hún sagðist styðja allsherjar endurskoðun á margmilljóna evra fjárstuðningi ESB við palestínsk verkefni.

„Mannúðarstuðningur okkar við fólkið í Palestínu er ekki undir. Það er þó mikilvægt að við förum gaumgæfilega yfir fjárstuðning okkar við Palestínu.“

Peningar frá ESB hafa aldrei og munu aldrei renna til Hamas-samtakanna eða annarra hryðjuverkasamtaka. Nú munum við yfirfara stuðning okkar með tilliti til atburða undanfarinna daga.

Útlit er fyr­ir stríðsátök næstu vik­ur eða mánuði

Íbúar í Ísra­el og er­lend­ir gest­ir vöknuðu snemma á laug­ar­dags­morg­un­inn við al­manna­varnaflaut­ur og spreng­ing­ar. Ham­as skaut þúsund­um flug­skeyta frá Gasa­svæðinu á borg­ir í Ísra­el en gerði einnig inn­rás á nokkr­um stöðum sam­tím­is auk aðgerða á sjó.

Ísraelsher hóf gagn­sókn samdægurs og hefur gert nær linnulausar loft­árás­ir á Gasasvæðið síðustu daga.

Evrópusambandið og aðildarríki þess hafa brugðist við með yfirlýsingum um samstöðu með Ísrael og skilgreint árásir Hamas-samtakanna sem hryðjuverk.

„Þetta eru hryðjuverk og þetta eru stríðsverk,“ sagði forsetinn.

Hefur vökult auga með Ísraelsmönnum

Þrátt fyrir afdráttarlausan stuðning sinn við Ísrael hefur Evrópusambandið vökult auga með Ísraelsmönnum og að þeir afmarki viðbrögð sín innan alþjóðalaga.

„Hamas-samtökin myrtu konur og börn á heimilum þeirra. Þeir eltu uppi hundruð ungmenna af báðum kynjum sem fögnuðu lífinu og friði með tónlist. Þeir hafa tekið hundruð saklausra borgara föngum, hverra örlög eru ekki ráðin.

Þetta saklausa fólk var drepið af einni ástæðu. Fyrir að vera gyðingar og fyrir að búa í Ísraelsríki. Þetta er forn illska sem minnir okkur á dimmustu daga mannkyns og þetta nístir okkur öll inn að beini.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert