Íslensk liðskona Pussy Riot eftirlýst

Handtökuskipun á hendur Lucy Shtein, liðskonu Pussy Riot, hefur verið …
Handtökuskipun á hendur Lucy Shtein, liðskonu Pussy Riot, hefur verið gefin út í Rússlandi. Samsett mynd/Instagram/AFP

Rússneskur dómstóll hefur gefið út handtökuskipun „in absentia“ á hendur liðskonu andófshópsins og hljómsveitarinnar Pussy Riot, Lucy Shtein. Shtein hlaut íslenskan ríkisborgararétt fyrr á árinu. 

Héraðsdómur í Basmanny-héraði í Rússlandi, úrskurðaði Shtein í tveggja mánaða gæsluvarðhald í fjarveru hennar uns hún verði framseld eða snúi aftur til Rússlands, samkvæmt The Moscow Times.

Shtein er ákærð fyrir að dreifa falsfréttum um rússneska herinn og athæfi hans í Úkraínu. Talsmaður dómstólsins, sem ekki vildi láta nafn síns geta, sagði Shtein vera eftirlýsta á alþjóðavísu, í samtali við rússneska miðilinn. 

Á tíu ára fangelsisdóm yfir höfði sér

Dreifing á „röngum upplýsingum“ um rússneska herinn er refsiverð samkvæmt rússneskum ritskoðunarlögum og getur hver sá sem gerist sekur um slíkt átt tíu ára fangelsisdóm yfir höfði sér. 

Pussy Riot-sveitin er þekkt­ust fyr­ir mót­mæli sín gegn Vla­dimír Pútín, Rúss­lands­for­seta, árið 2012, en þá truflaði hóp­ur­inn messu sem fór fram í Krists­kirkj­unni í Moskvu með pönktónlist og berum brjóstum. Frá því að inn­rás Rússa inn í Úkraínu hófst hef­ur hóp­ur­inn harðlega gagn­rýnt rúss­nesk stjórn­völd.

Shtein flúði landið ásamt kærustu sinni Mariiu Alekhina, forsprakka Pussy Riot. Alekhina flúði landið með aðstoð íslenska listamannsins Ragnars Kjartanssonar, en Shtein flúði dulbúin sem skyndibitasendill. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert