Krefja YouTube og TikTok svara

ESB vill vita hvað TikTok og YouTube eru að gera …
ESB vill vita hvað TikTok og YouTube eru að gera til að tryggja öryggi barna á míðlunum. AFP

Evrópusambandið greindi frá því í dag að það hafi hafið rannsókn á YouTube og TikTok til að komast að því hvað fyrirtækin séu að gera til að tryggja öryggi barna á miðlunum. 

Framkvæmdastjórn ESB segist hafa sent formleg erindi til TikTok og YouTube og er þetta fyrsta skrefið í því að framfylgja nýjum reglum, DSA, um stafrænt efni á netinu. 

Framkvæmdastjórnin segist vilja fá að vita til hvaða aðgerða myndskeiðismiðlarnir hafa gripið varðandi hina nýju reglur ESB (e. Digital Services Act), þá sér í lagi hvað varðar þá áhættu sem snýr að andlegri og líkamlegri velferð barna. 

Í aðildarríkjum Evrópusambandsins tóku reglur um nýjar skyldur tæknifyrirtækja gildi í nóvember 2022 með reglugerð um stafræna þjónustu. DSA hefur að geyma reglur sem taka m.a. til 19 stærstu samfélagsmiðla og leitarvéla heims.

Það er hægt að finna allskyns fróðleik á YouTube, en …
Það er hægt að finna allskyns fróðleik á YouTube, en einnig myndskeið og efni sem á ekkert erindi til barna. AFP

Öflugt vopn

Nýja löggjöfin er öflugt vopn sem ESB býr nú yfir til að takast á við stóru tæknifyrirtækin. Með henni er hægt að gera skýrari kröfur á hendur tæknirisunum að gera meira til að draga úr útbreiðslu á ólöglegu og meiðandi efni, sem og útbreiðslu falsfrétta. 

Gerist fyrirtækin brotleg við lögin þá geta þau átt von á því að hljóta háar sektir, eða sem getur numið allt að 6% veltu fyrirtækjanna á heimsvísu. 

TikTok, sem er í eigu kínverska fyrirtækisins ByteDance, er mjög vinsælt meðal ungra notenda. YouTube er hins vegar hluti af Alphabet digital, sem á einnig Google. 

Fyrirtækin hafa frest til 30. nóvember að svara erindi ESB. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert