Meta stefnt fyrir að hagnast á þjáningum

Rúmlega 40 ríki hafa stefnt Meta til greiðslu hárra sekta …
Rúmlega 40 ríki hafa stefnt Meta til greiðslu hárra sekta og bóta fyrir að stuðla að andlegri vanheilsu barna og hagnast á. AFP/Lionel Bonaventure

Rúmlega 40 ríki Bandaríkjanna hafa stefnt Meta, eiganda og rekstraraðila samfélagsmiðlanna Facebook og Instagram, sem þau telja hagnast á þjáningum barna og skaða andlega heilsu þeirra auk þess að kasta ryki í augu almennings hvað öryggi miðlanna snertir.

„Meta hefur ítrekað blekkt almenning, þegar kemur að þeirri umtalsverðu hættu sem miðlunum fylgir, með það fyrir augum að hámarka fjárhagslegan hagnað sinn,“ segir í stefnunni sem lögð var fram í alríkisdómstól í Kaliforníu í gær en flest ríkin standa sameiginlega að málsókninni, fáein þeirra ákváðu að stefna sjálf fyrir sínum dómstólum.

Í stefnunni kemur enn fremur fram að Meta hafi notfært sér ungdóminn og komið sér upp viðskiptalíkani hönnuðu til að ungir notendur verji sem mestum tíma á samfélagsmiðlunum óháð þeim áhrifum sem slíkt hafi á heilsu þeirra.

Krefjast sekta og bóta

„Andleg vanheilsa þjakar börn og ungmenni í ríkari mæli en nokkru sinni og um það er samfélagsmiðlum og fyrirtækjum á borð við Meta að kenna,“ sagði Letitia James, saksóknari í New York, í yfirlýsingu er málsókn ríkjanna var kynnt.

Krafa stefnenda, að sögn James, er að bandaríski dómstóllinn geri Meta að láta af stjórnunartilburðum sínum í garð barna og ungmenna og greiða háar sektir og bætur. Samfélagsmiðlafyrirtæki verði að bera ábyrgð á þeim heilsubresti er þau hafi valdið meðal ungs fólks.

Bandaríski landlæknirinn Vivek Murthy hvatti snemma á árinu til þess að gripið yrði til aðgerða til að tryggja að umhverfi samfélagsmiðla ylli ungum notendum ekki skaða. „Við horfum upp á neyðarástand í geðheilbrigðismálum ungmenna og ég óttast að samfélagsmiðlar séu einn helsti drifkraftur þess ástands – á þessu þarf að taka tafarlaust,“ var haft eftir Murthy í aðvörun sem embætti hennar sendi frá sér.

Sæki að Meta einu

Talsmenn Meta kveða málsóknina vonbrigði og benda á að ríkin sem að henni standi starfi ekki með samfélagsmiðlafyrirtækjunum við að útbúa notkunarstaðla samfélagsmiðla er miði við aldur notenda.

Enn fremur segja þeir Meta hafa þróað rúmlega 30 verkfæri í smáforritum til að styðja við bak notenda á unglingsaldri og auðvelda foreldrum að afmarka samfélagsmiðlanotkun barna sinna. Vonbrigðin séu einnig tengd því að saksóknarar velji að sækja að Meta einu í stað þess að leita lausna er nái til alls netiðnaðarins er litið sé til vinsælda miðla á borð við TikTok, YouTube og Snapchat.

Rannsókn á starfsemi Meta var hafin í kjölfar þess er uppljóstrarinn Frances Haugen lak rúmlega 20.000 síðum af innanhússgögnum í fjölmiðla sem vöktu gagnrýnisraddir þess efnis að samfélagsmiðlarisinn hefði skipað gróðasjónarmiðum ofar en öryggi notenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert