Forstjóra OpenAI sagt upp

Sam Altman, forstjóra OpenAI, hefur verið sagt upp störfum hjá …
Sam Altman, forstjóra OpenAI, hefur verið sagt upp störfum hjá fyrirtækinu, sem hann hjálpaði við að stofna. AFP

Stjórn OpenAI, sem þróar gervigreindarlíkanið ChatGPT, hefur bolað forstjóranum Sam Altman úr fyrirtækinu.

Mira Murati, einn af framkvæmdastjórum OpenAI, verður forstjóri til bráðabirgða, að því er fram kemur í yfirlýsingu bandaríska fyrirtækisins. New York Times greinir frá.

„Brottför Altmans kemur í kjölfar endurmatsferlis hjá stjórninni, sem komst að þeirri niðurstöðu að hann væri ekki hreinskilinn af fullri samkvæmni í samskiptum sínum við stjórnina, sem hindraði getu hennar til þess að sinna sinni ábyrgð,“ segir í yfirlýsingu OpenAI.

„Stjórnin getur hefur ekki lengur trú á hæfni hans til þess að halda áfram að leiða OpenAI.“

Ekki skýrt hvað olli ákvörðuninni

Þetta er hátt fall fyrir hinn 38 ára Altman, sem hefur á síðasta ári orðið einn þekktasti forstjóri í tæknigeiranum eftir að OpenAI kynnti spjallmennið ChatGPT til leiks síðasta haust.

Spjallmennið hefur síðan þá vakið mikla athygli.

OpenAI byrjaði sem lítið fyrirtæki til San Francisco en er nú orðið eitt af þekktustu tæknifyrirtækjum heims. Altman aðstoðaði við að stofna fyritækið árið 2015, með fjárstuðningi frá auðkýfingnum Elon Musk. 

Ekki er ljóst hvað knúði stjórnina til þess að sparka Altman út, fyrir utan það sem fram kemur í yfirlýsingu OpenAI.

Elskaði tímann sinn hjá OpenAI

New York Times náði ekki sambandi við Altman en á samfélagsmiðilinn X, áður Twitter, skrifaði forstjórinn fyrrverandi: „ég elskaði tímann minn hjá openai [svo]. hann var ummyndandi fyrir mig persónulega, og vonandi smá fyrir heiminn. allra mest elskaði ég að vinna með svona hæfileikaríku fólki. [Ég] mun hafa meira að segja um það sem kemur næst.“

Í gær mætti Altman á viðburð í Oakland í Kaliforníuríki Bandaríkjanna, þar sem hann ræddi um framtíð listar og listamanna með tilliti til hraðrar þróunar gervigreindarinnar. Þar gaf hann ekkert í skyn um að hann væri að hætta hjá OpenAI og sagði ítrekað að fyrirtækið myndi halda áfram að vinna samhliða listamönnum til þess að sjá til þess að þeirra framtíð yrði björt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert