Vöruðu við nýrri og ógnvænlegri gervigreind

Starfsmenn OpenAI höfðu áhyggjur af þróun nýrrar gervigreindar.
Starfsmenn OpenAI höfðu áhyggjur af þróun nýrrar gervigreindar. AFP

Margir starfsmenn vöruðu stjórn gervigreindarfyrirtækisins OpenAI við uppgötvun áhrifamikillar gervigreindar sem þeir sögðu að gæti ógnað mannkyni. Var þetta áður en forstjóra fyrirtækisins, Sam Altman, var tímabundið vikið úr starfi. Þetta segir í umfjöllun Reuters.

Áður en Altman var sagt upp fékk stjórnin í hendur minnisblað þar sem viðvörun starfsmannana kom fram. Altman sneri aftur á þriðjudaginn, aðeins nokkrum dögum eftir að hann var rekinn.

Var það í kjölfar þess að 700 starfsmenn hótuðu að segja upp og ganga til liðs við Microsoft vegna uppsagnar hans.

Q*

Talið er að minnisblað þetta, um gervigreindarverkefnið Q*, hafi átt þátt í ákvörðun stjórnar OpenAI að reka Altman. Stjórnin hafði einnig áhyggjur af því að gervigreindin yrði nýtt í gróðaskyni áður en skilningur á afleiðingum hennar lægi fyrir.

Sumir hjá OpenAI telja að þessi nýja útgáfa gervigreindarinnar, Q*, geti reynst brautryðjandi í leit fyrirtækisins að almennri gervigreind (e. artificial general intelligence, eða AGI). Eru það óháð líkön sem fara fram úr manneskjum í efnahagslega dýrmætum verkefnum.

OpenAI á heiðurinn að gervigreindarlíkaninu ChatGPT.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert