Myndskeið: „Þetta var svakalegt“

„Þetta var svakalegt,“ segir Óskar Hall­gríms­son í samtali við mbl.is spurður hvernig nóttin var en hann er búsettur í Kænugarði. Rússar gerðu umfangsmikla drónaárás á borgina í nótt. 

Óskar segir að loftvarnarflautur borgarinnar hafi farið af stað um klukkan hálf þrjú, „þannig að maður vaknaði við það en náði að sofna aftur“. Hann vaknaði síðan aftur klukkan fimm við „þvílíkar spengingar“ sem vörðu í nokkra klukkutíma. 

Óskar lýsir því hvernig drunur heyrðust á nokkurra mínútna fresti en úkraínsk yfirvöld greindu frá því að loftvarnarkerfi borgarinnar skaut niður 75 rússneskan dróna. Hann segir að mikill hávaði heyrist er loftvarnarkerfið reynir að skjóta niður dróna og er kerfið hæfir dróna springur hann í loftinu, „og það er svakaleg sprenging“.

Rafmagnsleysi er nú víða í borginni og fjöldi bygginga hafa orðið fyrir eyðileggingu. 

Ey[ilegging eftir árás næturinnar.
Ey[ilegging eftir árás næturinnar. AFP&Sergei Supinsky

Rússar undirbúið næstu sókn

Óskar nefnir að um sé að ræða langstærstu árás Rússa hingað til og hafa yfirvöld í Kænugarði sagt að um sé að ræða stærstu árásina síðan innrásin hófst í febrúar 2022. 

Spurður hvernig síðustu vikur og mánuðir hafi verið segir Óskar að árás næturinnar hafi legið í loftinu. 

„Þeir [Rússar] eru ekki búnir að senda neina svona árás í tvo mánuði,“ segir hann og bætir við að Rússar hafi verið að safna skotfærum og undirbúa næstu sókn. 

„Síðustu mánuðir hafa verið frekar erfiðir fyrir Úkraínu af því að það hefur ekki gengið vel í gagnsókninni. Rússar eru að halda vel við. Það er ekki hægt að segja að þeir séu að færa sig eitthvað fram,“ segir Óskar og bætir þó við að þeir séu að gera svakalegar árásir í austurhluta Úkraínu. 

Langþreyta 

24. febrúar árið 2024 verða tvö ár síðan innrás Rússa hófst. Er hinn almennari borgari orðinn ónæmur fyrir stríðinu?

„Nei. Það var mikið talað um baráttuanda Úkraínu hérna í gegnum stríðið og hjá almennum borgurum og blaðamönnum og hermönnum, og auðvitað er það ennþá til staðar. Hérna er þetta stríð tilverustríð. Fólk er ekki að fara gefast upp. En auðvitað er þetta erfitt. Þetta er eins og þú sért að keyra bíl á fjögur þúsund snúningum í marga marga mánuði, þótt þú reynir að hugsa eins vel um bílinn og hægt er þá tekur þetta á. Það er alveg farið að bera svolítið vel á því. Fólk er orðið langþreytt. Ég er orðinn langþreyttur. Þetta venst kannski aðeins, en samt ekki.“

Dagurinn ekki tilviljun 

Árásin í nótt var gerð á aðfaradegi minningardags hungursneyðarinnar á ár­un­um 1932 til 1933 sem dró millj­ón­ir Úkraínu­manna til dauða. 

Óskar segist ekki búast við mikilli dagskrá þar sem þá myndist skotmark fyrir Rússa. Hann nefnir að Rússar hafi þegar eyðilagt minnisvarða um hungursneyðina inni á herteknum svæðum. 

Forsetahjónin minnast fórnarlamba hungursneyðarinnar.
Forsetahjónin minnast fórnarlamba hungursneyðarinnar. AFP/Úkraínska forsetaembættið

„Það eru miklar kenningar um það af hverju þeir sendu bara dróna en engar eldflaugar. Það er líklega til þess að sjá hversu sterkar loftvarnirnar eru í borginni, hvar þær eru og annað, sem undirbúning fyrir stærri árás.“

Óskar nefnir að Pútín hafi verið duglegur við að gera árásir á sérstökum dagsetningum. „Þetta er alveg í takt við hann að gera árás á þessum degi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert