Biðjast afsökunar vegna talídómíðs

Anthony Albanese, forsætisráðherra Ástralíu, fyrr í mánuðinum.
Anthony Albanese, forsætisráðherra Ástralíu, fyrr í mánuðinum. AFP/Kent Nishimura/Getty

Áströlsk stjórnvöld hafa beðist afsökunar vegna lyfjahneykslis í landinu frá sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.

Hneykslið tengist „undralyfinu” talídómíð sem átti að hjálpa ófrískum konum við að komast hjá morgunógleði. Síðar kom í ljós að að lyfið olli einnig alvarlegum fæðingargöllum.

Talið er að lyfið hafi skaðað yfir 10 þúsund börn víðs vegar um heiminn áður en það var tekið af markaði á sjöunda áratugnum.

„Allir Ástralar sem hafa orðið fyrir skaða af völdum talídómíðs allt til dagsins í dag eru beðnir afsökunar,” sagði Anthony Albanese, forsætisráðherra Ástralíu, á þingi landsins.

„Í dag segjum við loksins, fyrirgefðu.”

Hann bætti við að afsökunarbeiðnin tengdist einum dekksta kafla í læknasögu Ástralíu.

Bresk stjórnvöld báðust einnig afsökunar vegna lyfsins árið 2010. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert