Líbía lét fjóra Hamas-liða lausa úr fangelsi

Frá Trípolí, höfuðborg Líbíu.
Frá Trípolí, höfuðborg Líbíu. AFP

Líbísk stjórnvöld hafa látið fjóra Hamas-liða lausa úr fangelsi. Mennirnir voru handteknir árið 2016, m.a. fyrir að smygla vopnum á Gasasvæðið. Þessu greina líbískir miðlar frá.

Fjórmenningarnir – Marwan al-Ashqar og sonur hans, Bara, auk Mouayad Abed og Nasib Choubeir – voru handteknir í Trípólí, höfuðborg Líbíu, í október 2016. Í febrúar 2019 voru þeir dæmdir í 17 til 22 ára fangelsi fyrir njósnir og vopnasmygl.

Líbískir miðlar greina frá því að þeim hafi verið sleppt í gær að beiðni ríkissaksóknara Líbíu, eftir milligöngu Tyrkja. Stjórnvöld eiga eftir að staðfesta lausn fanganna.

Taldir vera farnir til Katar

Hamas-liðarnir, sem voru í fangelsi í Trípólí, eru sagðir hafa haldið til Tyrklands og síðan til Katar, þar sem margri leiðtogar Hamas búa. 

Á óstaðfestri ljósmynd sem hefur flakkað um samfélagsmiðla má sjá þrjá menn í flugvél sem virðist vera einkaþota.

Líbía viðurkennir ekki sjálfstæði Ísraels. Frá því að einræðisherrann Muammar Gaddafi lést árið 2011 hefur Líbía verið klofin. Í vestri ræður Fayez al-Sarraj ríkjum en hann er sá leiðtogi Líb­íu sem nýt­ur stuðnings Sam­einuðu þjóðanna. Í austri er aftur á móti hers­höfðinginn Khalifa Haft­ar við völd.

Átta vikur eru síðan ófriður hófst fyrir botni Miðjarðarhafs með villimannlegri hryðjuverkaárás Hamas-liða hinn 7. október, þegar 1.200 Ísraelar voru drepnir og 240 teknir í gíslingu, langmest varnarlausir óbreyttir borgarar.

Fulltrúar hryðjuverkasamtakanna Hamas, sem hafa tögl og hagldir á Gasasvæðinu segja að 15 þúsund manns hafi verið felldir á svæðinu í árásum Ísraelshers, sem hófust nokkru síðar, en Ísrael hyggst ganga milli bols og höfuðs á Hamas-samtökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert