Forseti COP28 sagður afneita hlýnun jarðar

Soldáninn Ahmed Al Jaber.
Soldáninn Ahmed Al Jaber. AFP/Ludovic Marin

Al Jaber, forseti loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP28), segir að „engin vísindi“ gefi til kynna að það þyrfti að fasa út jarðefnaeldsneyti til þess að takmarka hækkun á hlýnun jarðar svo ekki nemi meira en 1,5 gráðum.

Frá þessu greinir The Guardian

Þá vill Al Jaber meina að afnám jarðefnaeldsneytis myndi ekki leyfa sjálfbæra þróun „nema þú viljir að menn fari aftur í hella“. 

Vísindamenn segja athugasemdir Al Jaber „valda miklum áhyggjum“ og vera „á barmi þess að afneita hlýnun jarðar“. Þá eru þær á öndverðu meiði við afstöðu Antonio Guter­res, aðal­rit­ara Sam­einuðu þjóðanna. 

Athugasemdirnar lét Al Jaber falla í svari við spurningum Mary Robinson, fyrrverandi forseta Írlands, á viðburði í fjarbúnaði 21. nóvember. 

Ásamt því að vera forseti ráðstefnunnar er Al Jaber framkvæmdastjóri olíufyrirtækisins Adnoc. 

Vildi ekki taka þátt í hræðsluáróðri 

Meira en 100 ríki hafa nú þegar lýst yfir stuðningi við að fasa út jarðefnaeldsneyti, þar á meðal Ísland. Óvíst er þó hvort að það ákvæði skili sér í samkomulag ráðstefnunnar. 

Al Jaber ræddi við Robinson á viðburðinum She Changes Climate. Benti Robinson þá á að Al Jaber ætti að taka meiri ábyrgð sem framkvæmdastjóri Adnoc. 

Al Jaber sagðist þá hafa samþykkt að taka þátt í viðburðinum á grundvelli þess að eiga í málefnalegum umræðum, ekki hræðsluáróðri. 

„Það eru engin vísindi til, eða nein sviðsmynd til, sem segir að það að fasa út jarðefnaeldsneyti nái markmiðinu um 1,5 gráðurnar.“

Robinson svaraði þá og sagði að hún hafi lesið að Adnoc ætli að fjárfesta enn meira í jarðefnaeldsneyti í framtíðinni. 

„Þú ert að lesa þína eigin miðla, sem eru hlutdrægir og rangir. Ég er að segja þér, ég er maðurinn sem ræður,“ svaraði Al Jaber og bætti við að ekki væri hægt að leysa vandann með því að reyna að finna sökudólg. 

Í ræðu sinni á ráðstefnunni á föstudag sagði Guterres að vísindin væru skýr og að ekki væri hægt að ná 1,5 gráðu markmiðinu nema með því að hætta að nota jarðefnaeldsneyti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert