Saka Rússa um aftöku hermanna sem gáfust upp

Rússar hafa ekki brugðist við ásökunum Úkraínumanna.
Rússar hafa ekki brugðist við ásökunum Úkraínumanna. AFP/Roman Pilipey

Úkraínumenn saka rússneska herinn um aftöku á tveimur óvopnuðum úkraínskum hermönnum sem höfðu gefið skýr merki um uppgjöf.

Stutt myndband, sem AFP-fréttastofan staðfestir, var birt á Telegram í gær sem sýndi tvo menn koma út úr skjóli með hendur fyrir ofan höfuð, áður en þeir lögðust á jörðina fyrir framan hóp annarra hermanna.

Það sem virtist vera skothríð fylgdi í kjölfarið ásamt reyk, áður en slökkt var á upptökunni.

Er atvikið fordæmt og því lýst sem stríðsglæp. Rússar hafa ekki brugðist við ásökunum Úkraínumanna.

Rannsókn hafin

Embætti ríkissaksóknara í Dónetsk-héraði í austurhluta Úkraínu sagði að myndbandið hefði verið tekið upp skammt frá bænum Avdívka í austri þar sem harðir bardagar geisa.

„Myndbandið sýnir hóp fólks í rússneskum einkennisbúningum skjóta af stuttu færi tvo óvopnaða hermenn í einkennisbúningi Úkraínuhers, sem gáfust upp sem fangar,“ sagði í yfirlýsingu ríkissaksóknara. Rannsókn er hafin á málinu.

„Dráp stríðsfanga er gróft brot á Genfarsáttmálanum og er flokkað sem alvarlegur alþjóðlegur glæpur,“ segir enn fremur í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert