Framkvæmdastjóri SÞ tekur óvenjulegt skref

Guterres sagði bréfi sínu til öryggisráðsins að átökin hafi valdið …
Guterres sagði bréfi sínu til öryggisráðsins að átökin hafi valdið „hræðilegum þjáningum, eyðileggingu og þjóðaráfalli.“ AFP/Mohammed Abed

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, skírskotaði til 99. greinar stofnsáttmála stofnunarinnar til að vara við yfirvofandi „mannúðar stórslysi“ og hvetja öryggisráð SÞ til að bregðast við ástandinu í Gasa. Þetta er aðeins í annað skiptið sem gripið hefur verið til greinarinnar.

Samkvæmt fréttastofu AP sagði Guterres í bréfi sínu til ráðsins, sem er skipað af 15 fulltrúum frá mismunandi löndum, að mannúðarkerfi Gasa væri að þrotum komið.  Tveggja mánaða átök hafi valdið „hræðilegum þjáningum, eyðileggingu og þjóðaráfalli.“ 

Krafðist hann þess að óbreyttum borgurum yrði hlíft við frekari þjáningu. 

„Alþjóðasamfélagið ber ábyrgð á því að beita öllum sínum áhrifum til að koma í veg fyrir frekari stigmögnun og binda enda á þessa krísu,“ sagði Guterres í bréfi sínu.

Telur ástandið ógna alþjóðaöryggi

Skref framkvæmdastjórans þykir mjög óvenjulegt, en afar sjaldgæft er að gripið sé til 99. greinar. Greinin kveður á um að framkvæmdastjóri SÞ megi upplýsa ráðið um mál sem hann telji ógna alþjóðlegum friði og öryggi.

Guterres, sem hefur gert ákall um tafarlaust vopnahlé síðan 18. október, segir ástandið á Gasasvæðinu ógna alþjóðaöryggi. Fram til þessa hefur ekki hefur tekist að samþykkja ályktun innan öryggisráðsins, þar sem vopnahlés er krafist á milli Ísrael og Hamas. 

Fulltrúi Sameinuðu arabísku furstadæmanna í ráðinu deildi drögum að ályktun um tafarlaust vopnahlé í kjölfar bréfs Guterres. 

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. AFP

Aðeins verið beitt einu sinni áður

Fimm lönd sitja varanlega í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna: Kína, Rússland, Frakkland, Bretland og Bandaríkin og hafa þau öll neitunarvald.

Bandaríkin beittu því neitunarvaldi þann 18. október gegn ályktun sem hefði fordæmt árás Hamas á Ísrael ásamt því að kalla eftir hléi í baráttunni til að hleypa mannúðaraðstoð inn á Gasasvæðið. Tólf aðrir fulltrúar í ráðinu greiddu atkvæði með ályktuninni, en Rússland og Bretland sátu hjá.

Talsmaður Sameinuðu þjóðanna, segir aðeins eitt annað tilfelli þar sem gripið hafið verið til grein 99. í sáttmálanum. Það var árið 1971, þegar þáverandi framkvæmdastjóri stofnunarinnar, U Thant, lýsti yfir áhyggjum sínum á alþjóðaöryggi vegna ástandinu í Austur-Pakistan, nú Bangladesh. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert