SÞ þurfa 4,2 milljarða dala vegna Úkraínu

Tvær konur á brú yfir Dnjepr í Kænugarði í Úkraínu …
Tvær konur á brú yfir Dnjepr í Kænugarði í Úkraínu í morgun. AFP/Roman Pilipey

Sameinuðu þjóðirnar segjast þurfa 4,2 milljarða dala fjárveitingu, jafnvirði nærri 580 milljarða króna, til hjálparstarfa í Úkraínu. Nærri þrjú ár eru liðin frá innrás Rússa í landið og milljónir manna hafa flúið stríðsátökin þar. 

„Munið þið eftir Úkraínu?“ sagði Martin Griffiths, yfirmaður mannúðaraðstoðar SÞ þegar hann kynnti áform stofnunarinnar í Genf í Sviss í morgun. 

„Ekki gleyma Úkraínu þótt mörg önnur svæði í heiminum þurfi á hjálp að halda. Nú í upphafi ársins 2024 verður samkeppnin um fjármagn til hjálparstarfa meiri,“ sagði hann og vísaði til stríðins á Gasasvæðinu.

SÞ vonast til að ná til 8,5 milljóna manna, sem eru á flótta í Úkraínu og um 2,3 milljóna Úkraínumanna, sem hafa flúið til nágrannalanda í austurhluta Evrópu. 

Rússar hafa hert loftárásir á Úkraínu á síðustu vikum og búa sig undir langt stríð. Griffiths sagði ljóst að ekkert lát yrði á hernaðinum á þessu ári. 

SÞ segja að um 14,6 milljónir manna, eða um 40% íbúa Úkraínu, muni þurfa á einhverri mannúðaraðstoð að halda á þessu ári. Áherslan verður lögð á að aðstoða þær 3,3 milljónir manna sem búa við víglínuna í austurhluta og suðurhluta landsins.

„Hundruð þúsunda barna búa í samfélögum við víglínuna, skelfingu lostin, hrjáð og bjargarlaus,“ sagði Griffiths, sem kynnti áætlun mannúðaraðstoðarinnar ásamt Filippo Grandi, yfirmanni Flóttamannastofnunar SÞ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert