Rússneskur liðhlaupi skotinn til bana á Spáni

Maxím Kúsmínov er sagður hafa fundist látinn og að hann …
Maxím Kúsmínov er sagður hafa fundist látinn og að hann hafi verið skotinn til bana í bílakjallara á Spáni. Skjáskot úr myndskeiði

Rússneski flugmaðurinn Maxím Kúsmínov, sem flúði til Úkraínu á herþyrlu á síðasta ári, fannst látinn eftir skotsár í bílakjallara á Spáni í liðinni viku.

Fram kemur í spænska ríkissjónvarpinu að Kúsmínov hafi búið á Alicante á Spáni undir dulnefni frá því hann flaug herþyrlu af gerðinni MI8 frá Rússlandi til Úkraínu í ágúst síðastliðnum.

Spænska lögreglan staðfesti að maður hafi fundist látinn eftir skotsár en vildi ekki staðfesta að um Kuzminov væri að ræða.

Spænska dagblaðið La Informacion, sem fyrst sagði frá árásinni, segir að lögregla leiti tveggja manna sem grunaðir eru um glæpinn. Eru þeir sagðir hafa verið á bíl sem fannst brunninn í bæ nærri Alicante.

Kúsmínov er sagður hafa dvalið á Alicante undir dulnefni.
Kúsmínov er sagður hafa dvalið á Alicante undir dulnefni. Ljósmynd/Dreamstime.com

Liðhlaup Kúsmínovs til Úkraínu þótti táknrænn sigur fyrir yfirvöld í Kænugarði. Leyniþjónusta Úkraínu, GUR, sagði að Kúsmínov hefði verið lokkaður í liðhlaupið.

Reuters segir frá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert