Tíu prósent telja að Úkraína geti sigrað

Tvöfalt fleiri telja að Rússar sigri. Flestir telja þó að …
Tvöfalt fleiri telja að Rússar sigri. Flestir telja þó að stríðið muni enda með einhvers konar málamiðlun. AFP/Anatolii Stepanov

Stuðningur við Úkraínu meðal Evrópumanna er enn víðtækur, en næstum tveimur árum eftir innrás Rússlands telja aðeins 10% Evrópumanna að Úkraína geti sigrað Rússa á vígvellinum.

Þetta kemur fram í könnun sem birt var í dag af utanríkismálaráði Evrópu. The Guardian greinir frá.

Könnunin var framkvæmd í 12 Evrópulöndum og kom þar fram að 20% svarenda töldu að Rússar myndu sigra stríðið. 37% svarenda töldu að stríðið myndi enda með einhvers konar málamiðlun og samkomulagi.

Viðhorfin voru mismunandi milli landa en svarendur í Póllandi, Svíþjóð og Portúgal voru bjartsýnastir með möguleika Úkraínumanna á sigri en þar svöruðu um 17 prósent því að Úkraína gæti sigrað. Ungverjar og Grikkir voru minnst bjartsýnir á úkraínskan sigur.

Sumir vilja ýta Úkraínumönnum að samningaborðinu

Í Frakklandi, Þýskalandi og Hollandi voru álíka margir svarendur sem sögðu að ýta þyrfti Úkraínumönnum að samningaborðinu og sögðu að áfram ætti að vopna Úkraínumenn til að halda stríðinu gangandi.

Í Svíþjóð, Portúgal og Póllandi vildu þó talsvert fleiri halda áfram hernaðarlegum stuðningi við Úkraínu en ekki.

Í Ungverjalandi, Grikklandi, Ítalíu og Austurríki voru þó fleiri á því að ýta ætti Úkraínumönnum að samningaborðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert