Ryanair vill bætur frá Boeing

Michael O‘Leary, forstjóri Ryanair.
Michael O‘Leary, forstjóri Ryanair. AFP

Michael O´Leary, forstjóri Ryanair, segir fyrirtækið ætla að sækja bætur til Boeing vegna tafa í afhendingu flugvéla og sökum þess að flugfélagið þurfti að fresta flugferðum í kjölfar tilskipunar frá bandarískum flugmálayfirvöldum (FAA).

Tafirnar eiga rætur sínar að rekja til ófullnægjandi gæðaeftirlits en eins og fram hefur komið losnaði hleri af Boeing-vél Alaska Airlines í miðju flugi eftir að skrúfboltar höfðu ekki verið festir í verksmiðju Boeing.

Bandarík flugmálayfirvöld sendu út tilskipun í kjölfarið þar sem 171 af 218 737 MAX 9-vélum frá Boeing voru kyrrsettar tímabundið á meðan farið var yfir skrúfbolta í flugvélum. Að auki þurfti Boeing að fara í sérstakt átak til að kanna festingu skrúfbolta í 1400 vélum í verksmiðju sinni.

Vegna tilskipunarinnar þurfti Ryanair að fella niður fjölda flugferða. Þá hafði Ryanair búist við því að fá 40-45 flugvélar frá Boeing í sumar í stað 50 flugvéla eins og samið hafði verið um.

O´Leary sagði í samtali við írska fjölmiðla, en Ryanair hefur höfuðstöðvar á Írlandi, að í samningum við Boeing væri tilgreint að tafir gætu orðið í afhendingu þegar aðstæður væru óviðráðanlegar.

Hins vegar segir O´Leary að mistök í gæðaeftirliti séu óafsakanlegar og telur Boeing bótaskylt vegna málsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert