Bretar hafa ekki í hyggju að fjölga hermönnum í Úkraínu

Bresk yfirvöld hafa ekki í hyggju að senda hermenn til Úkraínu í miklum mæli. Þetta sagði talsmaður bresku ríkisstjórnarinnar sem viðbragð við ummælum Frakklandsforseta sem hefur ekki útilokað að senda hermenn til landsins. 

Það vakti mikla athygli þegar Emmanuel Macron, forseti Frakklands sagði: „Það er ekki hægt að útiloka neitt eigum við að ná okkar markmiðum: Rússar geta hvorki né mega vinna þetta stríð.“

Bretar hafa aðstoðað við þjálfun úkraínskra hermanna, bæði í Úkraínu …
Bretar hafa aðstoðað við þjálfun úkraínskra hermanna, bæði í Úkraínu og í Bretlandi. Þá hafa bretar útvegað Úkraínumönnum búnað og birgðir. AFP

Ummæli lét Macron falla þegar hann var gestgjafi á ráðstefnu þar sem margir evrópskir leiðtogar komu saman til að stuðla að frekari stuðningi við Úkraínu. 

„Nú þegar eru Bretar með fámennt lið í landinu til stuðnings við vopnaðar sveitir Úkraínumanna, m.a. við læknisþjálfun,“ sagði talsmaður breska forsætisráðherrans. 

Hann bætti við að bresk stjórnvöld hefðu ekki í hyggju að senda fjölmennt lið til landsins. 

„Bretland er að auki að þjálfa marga Úkraínumenn hér í Bretlandi. Við erum augljóslega að styðja við úkraínska hermenn auk þess sem við erum að útvega þeim búnað og birgðir.“

Stjórnvöld í Rússlandi hafa sent frá sér yfirlýsingu í kjölfarið á ummælum Frakklandsforseta. Þar kemur fram að það þjóni ekki hagsmunum vestrænna ríkja að senda hersveitir til Úkraínu. 

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, hefur sagt að hvorki Evrópusambandið né NATO-ríkin muni senda hermenn til landsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert