Áfallahjálparteymi vegna vélsleðamanna

Lögreglubifreið í grænlensku höfuðborginni Nuuk þar sem tveir vélsleðamenn fundust …
Lögreglubifreið í grænlensku höfuðborginni Nuuk þar sem tveir vélsleðamenn fundust látnir eftir snjóflóð í gær. Ljósmynd/Wikipedia.org/10-20.dk

Áfallahjálparteymi er þeim til reiðu er á þurfa að halda á slökkvistöðinni í grænlensku höfuðborginni Nuuk eftir að tveir rúmlega tvítugir karlmenn létu lífið í snjóflóði við Aqqitsoq þar í borginni síðdegis í gær.

Þetta hefur grænlenska dagblaðið Sermitsiaq eftir lögreglunni á staðnum og enn fremur þær upplýsingar að viðbragðsaðilar hafi þegar tekið til við að veita fyrstu hjálp eftir að mennirnir, sem voru á ferð á vélsleðum, fundust í snjóflóðinu í gær, en þær aðgerðir hafi ekki borið árangur.

Mikið hefur snjóað síðustu daga í og umhverfis Nuuk og hætta á snjóflóðum aukist samfara snjókomunni.

Fjöldi fólks tók þátt í björgunaraðgerðum eftir snjóflóðið í gær, lögregla, danska herdeildin Arktisk Kommando, björgunarsveitarfólk á vélsleðum auk sjálfboðaliða.

Lögregla þakkar á Facebook-síðu sinni öllum þeim er lögðu gjörva hönd á plóg við leitina að mönnunum og hvetur fólk til að gæta vel að sér við vélsleðaakstur. Fleiri er ekki saknað svo vitað sé.

Sermitsiaq

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert