Stenst Biden læknisskoðun?

Joe Biden fór í sína árlegu læknisskoðun í dag.
Joe Biden fór í sína árlegu læknisskoðun í dag. AFP/Saul Loeb

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, fór í sína árlegu læknisskoðun á Walter Reed-hersjúkrahúsinu í Washington-borg fyrr í dag en þar var bæði líkamleg og andleg heilsa forsetans rannsökuð.

AFP greindi frá því að Hvíta húsið myndi svo síðar í dag greina frá niðurstöðum skoðunarinnar.  

„Ég er að fara til Walter Reed í tékk,“ sagði hinn 81 árs gamli Biden við fréttamenn þegar hann yfirgaf Hvíta húsið í þyrlu.

Kjósendur áhyggjufullir

Þá hafa áhyggjur kjósenda vegna heilsufars og aldurs Biden aukist en ef hann nær endurkjöri í kosningunum í nóvember verður hann orðinn 86 ára þegar því kjörtímabili lýkur. 

Hefur heilsa forsetans verið í sviðsljósinu að undanförnu og ekki síst eftir að skýrsla sérstaks ráðgjafa sýndi fram á að Biden væri bæði orðinn aldraður og gleyminn. Þykir sú skýrsla gefa keppinautum hans byr undir báða vængi og gera Biden að skotmarki.

Biden svaraði hins vegar fyrir sig á blaðamannafundi í Hvíta húsinu þar sem hann sagði að minni sitt væri fínt og gagnrýndi hann þennan ráðgjafa fyrir að halda því fram að hann gæti ekki munað hvenær sonur hans, Beau, lést úr krabbameini.

Betri en Trump

Sjálfur gerði Biden góðlátlegt grín að aldri sínum í viðtali við þáttastjórnandann Seth Meyers í vikunni þegar hann sagði að hann væri að minnsta kosti betri kostur en hinn forsetaframbjóðandinn, hinn 77 ára gamli Donald Trump, sem væri aðeins nokkrum árum yngri en hann. 

Í læknisskoðuninni í fyrra fékk Biden góðar niðurstöður, þrátt fyrir að hann hafi látið fjarlægja krabbamein í húð úr brjósti sínu.

Joe Biden í viðtali hjá Seth Meyers.
Joe Biden í viðtali hjá Seth Meyers. AFP/Jim Watson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert