Kínverskar myndavélar vekja ugg í Noregi

Vélarnar frá Hikvision eru víða í notkun í Noregi, svo …
Vélarnar frá Hikvision eru víða í notkun í Noregi, svo sem hjá íþróttafélögum en ísknattleiksfólki þykja þær hið mesta þarfaþing til að skoða viðureignir á svellinu eftir á. Ljósmyndir/Ýmis norsk íþróttafélög

Norska þjóðaröryggisstofnunin NSM varar við hugsanlegum „bakdyrum“ í öryggismyndavélabúnaði frá kínverska fyrirtækinu Hikvision sem víða er í notkun í Noregi. Eru vélarnar í notkun á 128 stöðum sem norska ríkisútvarpið NRK tiltekur, meðal annars í skólum, á umönnunarheimilum og á minnst einum flugvelli svo vitað sé.

Hafa vélarnar verið bannaðar með öllu í nokkrum löndum, meðal annars í Bandaríkjunum sem einnig hafa bannað öryggismyndavélar kínverska framleiðandans Dahua með þjóðaröryggissjónarmið að leiðarljósi.

Evrópuþingið er meðal stofnana sem einna lengst hafa gengið, þar er allur búnaður frá Kína einfaldlega bannaður en talsmaður Hikvision, sem svarar erindi NRK skriflega, kveður litla ástæðu til að óttast.

Sendiráðið þegir þunnu hljóði

„Í Noregi og á öðrum erlendum mörkuðum eru viðskiptavinir okkar umboðsaðilarnir, öryggisfyrirtæki og verktakar, ekki notandinn sjálfur,“ skrifar svarandinn. Þar með sé engin leið fyrir einhvern þriðja aðila að komast yfir efni sem vélarnar taka upp. Tekur svarandi hjá Dahua í sama streng og segir fyrirtækið hvorki vera í eigu né láta stjórnast af nokkurri ríkisstjórn.

Eftirlit með vélum Hikvision í Menningarmiðstöðinni í Ål.
Eftirlit með vélum Hikvision í Menningarmiðstöðinni í Ål. Ljósmynd/Terje Vesterøy/Ål Kulturhus

Fyrirtækið visti ekki upplýsingar frá nokkrum notanda og hafi auk þess gagnaöryggi sem sitt helsta markmið, alltaf og alls staðar.

Kínverska sendiráðið í Ósló þegir hins vegar þunnu hljóði og svarar engum fyrirspurnum NRK um myndavélamálið.

Að sögn kerfisstjóra flugvallarekstraraðilans Avinor ákvað fyrirtækið árið 2022 að kaupa ekki búnað frá Hikvision. Hafi sú ákvörðun verið tekin á grundvelli upplýsinga sem fyrirtækið aflaði sér. Engu að síður eru vélar Hikvision í notkun á einum norskum flugvelli sem vitað er um, en það er Værnes-flugvöllurinn í Þrándheimi.

Vélarnar víða á bókasöfnum

Breska blaðið The Guardian greindi frá því í nóvember hvernig öryggismyndavélar frá Hikvision hefðu verið nýttar til að safna upplýsingum sem beitt var til að kúga minnihlutahópinn úígúra auk þess sem Ísraelar hefðu nýtt þær til eftirlits á Vesturbakkanum. Fullyrtu talsmenn Hikvision að sú notkun hefði lagst af árið 2018.

Norsk bókasöfn eru annar vettvangar Hikvision-vélanna og eru þær útbreiddar þar. Eru viðkomandi sveitarfélög þá kaupendur en seljandinn er alls staðar sá sami, Bibliotekssystemer AS, og greinir fyrirtækið nú frá því á heimasíðu sinni að til standi að skipta vélunum umdeildu út.

Norsk stjórnvöld kjósa að nota ekki kínverska tækni til eftirlits í ráðuneytunum og norski herinn er sama sinnis. Þó kveðst ráðuneyti stafrænna mála og stjórnsýslu ekki munu útiloka myndavélabúnað frá þeim tveimur framleiðendum sem hér eru til umræðu.

Bakdyrnar torfundnar

Þjóðaröryggisstofnunin hefur nýverið sent frá sér árlega áhættumatsskýrslu sína þar sem fram kemur að stofnunin telji ódýran kínverskan tæknibúnað, svo sem eftirlitsmyndavélar, skapa áhættu í landinu. Segir stofnunin norsk fyrirtæki þurfa að vera meðvituð um þá hættu sem fylgt geti slíkum búnaði og gera ráðstafanir til samræmis við það.

Bankar í Noregi og minnst einn flugvöllur nota einnig Hikvision-vélarnar …
Bankar í Noregi og minnst einn flugvöllur nota einnig Hikvision-vélarnar sem NSM óttast mjög samkvæmt nýrri áhættumatsskýrslu þaðan. Ljósmynd/Sparisjóðurinn í Nærbø

„Kínversk lög uppáleggja kínverskum fyrirtækjum að láta kínverskum eftirlitsstofnunum upplýsingar í té auk þess að gefa þeim skýrslu um akkilesarhæla í framleiðslunni,“ skrifar NSM í skýrsluna.

„Þetta gefur Kínverjum færi á að flytja út tæknibúnað með leyndum bakdyrum sem nýta má til leyniþjónustustarfsemi. Þessar bakdyr eru mjög torfundnar.

NRK

VG

The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert