170 manns teknir af lífi

Frá mótmælum í Búrkína Fasó. Miklar óeirðir hafa geisað í …
Frá mótmælum í Búrkína Fasó. Miklar óeirðir hafa geisað í landinu. Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP

170 manns voru teknir af lífi í árásum á þrjú þorp í Búrkína Fasó fyrir viku síðan að sögn saksóknara. 

Aly Benjamin Coulibaly saksóknari hefur fengið upplýsingar um árásir á þorpin Komsilga, Nodin og Soroe í Yatenga-héraði 25. febrúar þar sem að „um 170 manns voru teknir af lífi“.

Þá særðist fjöldi fólks og innviðir voru eyðilagðir í bænum Ouahigouya. 

Konur og börn myrt

Coulibaly saksóknari hefur hafið rannsókn á málinu og biðlað til almennings að veita upplýsingar. 

Fórnarlömb árásanna greindu AFP-fréttaveitunni frá því að tugir kvenna og barna væru á meðal þeirra sem voru myrt.

Fjöldi hryðju­verkja­árása hefur verið gerður í rík­inu síðustu ár. Árás­irn­ar eru flest­ar bendlaðar við íslamsk­ar öfga­hreyf­ing­ar sem tengjast hryðjuverkasamtökum í Malí. 

Um 20 þúsund manns hafa látið lífið í árásunum og um tvær milljónir manna lagt á flótta í Búrkína Fasó sem er eitt af fátækustu ríkjum heims. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert