Telja íhlutun vesturvelda sannaða

Múgur í þýsku höfuðborginni Berlín krefst þess að þýsk yfirvöld …
Múgur í þýsku höfuðborginni Berlín krefst þess að þýsk yfirvöld sendi Úkraínumönnum Taurus-flugskeyti þeim til bjargar og fulltingis. Rússar telja nú íhlutun vesturveldanna í Úkraínu sannaða eftir að upptöku af samtali þýskra ráðamanna var lekið á föstudaginn. AFP/Odd Andersen

Stjórnvöld í Kreml hinu rússneska telja nú sýnt að vesturveldin hlutist til um stríðið í Úkraínu eftir að 38 mínútna langri upptöku af samtali hátt settra manna í þýska hernum var lekið og henni teflt fram á rússneskum samfélagsmiðlum síðla föstudags.

Þykir lekinn hin mesta hneisa þýskum stjórnvöldum sem um þessar mundir sæta miklum þrýstingi um að senda Taurus-flugskeyti til úkraínsku höfuðborgarinnar Kænugarðs.

Segir Dmítrí Peskov talsmaður Kremlarvalds að samtalið lekna afhjúpi enn á ný „bein afskipti sameinaðra vesturvelda af Úkraínu“ en umræðuefni Þjóðverjanna snerist meðal annars um hvert hentugt væri að beina flugskeytunum og kom brúin yfir Kerch-sundið milli rússneska meginlandsins og Krímskagans þar meðal annars upp sem hugmynd að skotmarki.

Skýr og hnitmiðuð árás

Þýsk stjórnvöld segjast telja um hlerað samtal stjórnenda flughersins að ræða en treysta sér ekki til að kveða upp úr með hvort átt hafi verið við upptökuna og henni breytt með einhverjum hætti áður en hún var gerð heyrum kunn.

Enn fremur segir Peskov það deginum ljósara að upptakan sýni að þýski herinn, Bundeswehr, leggi á ráðin um „skýra og hnitmiðaða“ árás á rússneskt yfirráðasvæði og hafa rússneskar ríkisfréttastofur nú greint frá því að sendiherra Þýskalands í Rússlandi hafi verið kallaður fyrir utanríkisráðuneytið í Moskvu til útskýringa.

Olaf Scholz Þýskalandskanslari hefur fram til þessa neitað að senda Taurus-flaugarnar til Úkraínu og borið því við að slíkt yrði aðeins sem olía á ófriðarbálið milli kjarnorkuveldisins Rússlands og vestrænna ríkja.

SCALP-flaugar frá Bretum og Frökkum

Hafa Úkraínumenn þrýst mjög á Þjóðverja að senda flaugarnar nú er úkraínskir hermenn eigi í vök að verjast á vígstöðvunum og séu þar hvort tveggja fáliðaðri og lakar mannaðir en andstæðingurinn auk þess sem hörgull á skotfærum geri þeim óhægt um vik.

Bretar og Frakkar hafa brugðist vel við ákalli Úkraínumanna og sent þeim svokallaðar SCALP- eða Storm Shadow-flaugar sem draga um 250 kílómetra en Þýskalandskanslari sagði í morgun að Þjóðverjar gætu ekki réttlæt þann rausnarskap sín megin að senda Úkraínumönnum langdræg flugskeyti og styðja við flutning vopnakerfa á notkunarstað.

Snerist hluti samtalsins, sem lekið var, einmitt um að draga í efa skýringar kanslarans á því hvers vegna Þjóðverjar gætu ekki útvegað Úkraínumönnum Taurus-flaugarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert