Frumvarp um bann við TikTok samþykkt í þingnefnd

Shou Zi Chew, framkvæmdarstjóri TikTok, þurfti að bera vitni í …
Shou Zi Chew, framkvæmdarstjóri TikTok, þurfti að bera vitni í öldungadeidinni undir lok janúars. AFP/Getty Images/Alex Wong

Frumvarp sem myndi þvinga ByteDance til að selja dótturfyrirtæki sitt TikTok, ella yrði forritið bannað í Bandaríkjunum, er komið úr þingnefnd í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.

Allir 50 þingmenn í orku- og viðskiptanefndinni samþykktu frumvarpið og verður kosið um það í næstu viku. Í ljósi þess að þverpólitísk samstaða náðist um málið í nefnd er ekki talið ólíklegt að fulltrúadeildin samþykki frumvarpið.

CNN business greinir frá.

Joe Biden fagnar frumvarpinu

Ástæða frumvarpsins er fyrst og fremst af þjóðaröryggisástæðum. TikTok safnar miklum upplýsingum um notendur sína, en óttast er að kínverska ríkið hafi greiðan aðgang að þeim gögnum. Forsvarsmenn TikTok hafna því alfarið en móðurfyrirtækið ByteDance er kínverskt.

Ef frumvarpið yrði að lögum hefði ByteDance 165 daga til að selja TikTok. Ef ByteDance myndi ekki selja TikTok þá yrði ólöglegt fyrir forrit eins og App store og Google play store að veita aðgang að TikTok.

Fram kom á blaðamannafundi upplýsingafulltrúa Hvíta hússins, Karine Jean-Pieree, að Joe Biden Bandaríkjaforseti fagnaði frumvarpinu.

Enn nokkuð langt í land til að verða að lögum

Til að verða að lögum þyrfti fulltrúadeildin að samþykkja frumvarpið og þá færi það til meðferðar hjá öldungadeild Bandaríkjaþings. Örlög þess eru óljósari þar.

Formaður viðskiptanefndar öldungadeildarinnar, Maria Cantwell, hefur ekki skuldbundið sig til að koma frumvarpinu fram.

„Ég mun ræða við öldungadeildina og kollega mína til að reyna að finna leið fram á við sem er stjórnarskrárbundin og verndar borgaraleg réttindi,“ sagði Cantwell í yfirlýsingu til CNN.

Ef til þess kæmi að öldungadeildin samþykkti þetta frumvarp þá þyrfti forsetinn svo að skrifa undir líka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert