Boeing-uppljóstrari fannst látinn

Flugvél LATAM-flugfélagsins af gerðinni Boeing 787 Dreamliner.
Flugvél LATAM-flugfélagsins af gerðinni Boeing 787 Dreamliner. AFP/Brett Phibbs

Fyrrverandi starfsmaður flugvélaframleiðandans Boeing, sem er þekktur fyrir að hafa vakið athygli á ýmsum vanköntum hjá fyrirtækinu er varða gæðamál, hefur fundist látinn í Bandaríkjunum.

John Barnett starfaði fyrir Boeing í 32 ár áður en hann komst á eftirlaun árið 2017. Örfáum dögum fyrir andlátið hafði Barnett veitt upplýsingar í máli gegn fyrirtækinu.

Dánardómstjóri í Charleston-sýslu staðfesti andlátið við BBC í gær. Sagði hann Barnett hafa dáið af völdum sjálfsáverka 9. mars og að lögreglan hefði málið til rannsóknar.

Framleiðsluferli flýtt

Barnett starfaði sem gæðastjóri hjá Boeing í Norður-Charleston frá árinu 2010, og kom m.a. að gerð 787 Dreamliner-þotunnar, sem er gerð fyrir lengri flug.

Í viðtali við BBC árið 2019 greindi Barnett frá því að starfsmenn Boeing hefðu vísvitandi sett saman flugvélar með pörtum sem uppfylltu ekki gæðakröfur.

Þá kvaðst hann einnig hafa komist á snoðir um alvarleg vandamál er vörðuðu súrefniskerfin sem gætu leitt til þess að súrefnisgrímur myndu ekki virka í neyðarástandi í fjórðungi tilfella.

Hann sagði að skömmu eftir að hann hefði hafið störf í Suður-Karólínu hefðu vaknað áhyggjur um að þessi mikli þrýstingur frá fyrirtækinu um að koma nýju flugvélinni saman hefði flýtt samsetningarferlinu um of og að öryggi væri ógnað.

Boeing neitaði ásökunum.

Upplýsti yfirmenn

Sagði Barnett að til að koma í veg fyrir tafir við framleiðslu hefðu starfsmenn m.a. gripið til þess örþrifaráðs að sækja parta sem búið var að henda og komið þeim fyrir í flugvélum sem var verið að setja saman.

Barnett sagðist hafa upplýst yfirmenn sína en enginn hefði brugðist við.

Við skoðun bandarískra flugmálayfirvalda (FAA) árið 2017 kom í ljós að ýmislegt var til í ásökunum Barnetts.

Eftir að Barnett fór á eftirlaun hóf hann málaferli við Boeing. Um það leyti sem hann fannst látinn hafði Barnett verið í Charleston að veita upplýsingar í tengslum við málaferlin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert