Yfirvofandi hungursneyð á Gasasvæðinu fordæmalaus

„Það að 50 prósent af heilli þjóð sé í heljargreipum …
„Það að 50 prósent af heilli þjóð sé í heljargreipum og á þröskuldi hungursneyðar er fordæmalaust.“ AFP

Helmingur íbúa á Gasasvæðinu upplifir nú „skelfilegt hungur“ og er því spáð að hungursneyð muni herja á norðurhluta svæðisins í maí verði ekki gripið til bráðra aðgerða strax.

Þetta kemur fram í matvælaöryggismati IPC sá vegum Sameinuðu þjóðanna, sem var uppfært í gær.

„Fólk á Gasa er að svelta í hel í þessum töluðu orðum. Ógnarhraðinn á þessu manngerða hungri og næringarskortskrísu á Gasa er ógnvekjandi,“ sagði Cindy McCain, for­stöðukona mat­vælaáætlunar Sam­einuðu þjóðanna (WFP).

„Það að 50 prósent af heilli þjóð sé í heljargreipum og á þröskuldi hungursneyðar er fordæmalaust,“ sagði Beth Bechdol, aðstoðarforstjóri Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO), í samtali við AFP.

Um er að ræða um 1,1 milljón manns samkvæmt WFP og er það mesti fjöldi fólks sem staðið hefur frammi fyrir hungursneyð síðan skrásetningar hófust.

Hinn tíu ára gamli Yazan al-Kafarneh, sem lést 4. mars …
Hinn tíu ára gamli Yazan al-Kafarneh, sem lést 4. mars sl. vegna alvarlegs næringarskorts og skorts á réttum lyfjum. AFP

„Óforsvaranlegt“ að bíða með aðgerðir

IPC-kerfið, á vegum SÞ og hjálparstofnana, er notað af SÞ eða ríkisstjórnum til að meta hvort lýsa eigi opinberlega yfir hungursneyð eða ekki.

„Hungursneyð er yfirvofandi í norðurhlutanum og spáð er að hún muni eigi sér stað hvenær sem er frá miðjum mars og maí 2024,“ segir í skýrslu IPC um Gasa.

„Öll sönnunargögn benda til mikillar aukningar á dauðsföllum og vannæringu. Það er óforsvaranlegt að bíða eftir afturvirkri hungursneyðarflokkun áður en gripið er til aðgerða.“

Ísrael hindri aðgengi hjálparaðila

Er ástandið sérstaklega slæmt á norðurhluta Gasa þar sem um 300.000 manns dvelja nú samkvæmt upplýsingum SÞ. Hjálparstofnanir hafa átt í miklum erfiðleikum með að flytja inn og úthluta matvælum og annarri neyðaraðstoð.

Hafa bresku hjálparsamtökin Oxfam meðal annars ásakað Ísrael um að vinna kerfisbundið að því að hindra aðgengi hjálparaðila og hleypa birgðum inn á svæðið, í bága við alþjóðleg mannúðarlög.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert