„Við Dorrit höfum verið vinkonur í fimmtíu ár“

Michael og Shakira Caine.
Michael og Shakira Caine. Ljósmynd/Aðsend

„Konan mín er múslimi og hún gerir múslimahluti. Ég er kristinn og ég geri kristna hluti, engra spurninga spurt,“ sagði breski leikarinn Michael Caine í viðtali árið 2009. Blaðamaður Morgunblaðsins spurði Caine út í þessi ummæli er hann ræddi við goðsögnina sjálfa og Shakiru eiginkonu hans. Hjónin kvæntust á því herrans ári 1973, er hún dóttir indverskra múslima, fædd og uppalin í Bresku Gvæjana sem þá hét, og sjálf múslimi. 

„Þarna eru engir árekstrar,“ útskýrir Caine, „við höfum okkar trú og við erum ekkert að abbast upp á hvort annað með það.“ „Og við Dorrit erum bestu vinkonur,“ grípur Shakira orðið og á að sjálfsögðu við forsetafrúna fyrrverandi, Dorrit Moussaieff, sem er gyðingur en vinabönd þeirra eru býsna löng í tíma talið. Íslandstengingar má finna alls staðar – eða næstum því. „Við Dorrit höfum verið vinkonur í fimmtíu ár,“ tekur stórleikarinn fram en Dorrit er guðmóðir dóttur þeirra Shakiru.

Michael og Dorrit Moussaieff. Dorrit er guðmóðir dóttur þeirra hjóna.
Michael og Dorrit Moussaieff. Dorrit er guðmóðir dóttur þeirra hjóna. Skjáskot/Instagram

Við færum okkur yfir í allt aðra sálma. Augu heimsins hvíla á afhendingu Óskarsverðlaunanna ár hvert, hinni æðstu viðurkenningu kvikmyndaheimsins, hinu heilaga grali hans jafnvel. Caine hlaut sex tilnefningar til verðlaunanna árabilið 1966 til 2002 og hlaut verðlaunin tvívegis, fyrir besta karlkyns leikara í aukahlutverki í Hannah and Her Sisters frá 1986 og áðurnefnda The Cider House Rules frá 1999.

„Alveg ótrúleg upplifun“

Þá eru ótaldar – meðal annars – átta tilnefningar til bresku BAFTA-verðlaunanna sem hann hlaut einu sinni, fyrir Educating Rita árið 1983, og tólf tilnefningar til alþjóðlegu Golden Globe-verðlaunanna, sem ná til kvikmynda jafnt sem sjónvarps, en þau hlaut Caine þrívegis, fyrir Educating Rita, Jack the Ripper árið 1989 og Little Voice 1999. Aragrúi annarra verðlauna prýðir vitaskuld feril leikarans breska en hann er spurður út í verðlaun verðlaunanna, Óskarinn, og hvaða tilfinning fylgi því eiginlega að hljóta þessa gríðarstóru viðurkenningu.

„Það var alveg ótrúleg upplifun, mig óraði ekki fyrir að ég fengi þessi verðlaun nokkurn tímann. En þegar upp var staðið fékk ég tvenn Óskarsverðlaun og ég var tilnefndur sex sinnum. Ég fylltist djúpstæðri gleði og ég get alveg sagt þér að flestum leikurum yrði þannig innanbrjósts,“ segir verðlaunahafinn og talar hvort tveggja af reynslu og sannfæringu.

Búinn að gera allt í myndum

En skyldu verðlaun á borð við Óskarsverðlaunin vera heppilegur mælikvarði á það hvenær leikarar teljist virkilega komnir upp á stjörnuhimininn svokallaða?

„Fólk spyr mig sífellt hvernig stórstjörnur verði til. Þar að baki liggur blanda af hæfileikum og persónuleika. Þú verður að búa yfir persónutöfrum og kímnigáfu, þar liggur galdurinn á bak við það að áhorfendur vilja sjá þig aftur og aftur,“ segir Caine og geta líklega flestir kvikmyndaunnendur verið sammála um að hann hafi hlotið ríkulega úthlutun þegar tveir síðastnefndu eiginleikarnir eru annars vegar.

„Lærðu línurnar þínar og vertu alltaf stundvís. Þú lærir margt af því að gaumgæfa náungann. Athyglisgáfan er háskóli lífsins,“ heldur hann áfram og er óspar á leiðarvísinn að rauða dreglinum enda baráttu hans lokið í einum harðasta samkeppnisbransa veraldar. Ekki er þó lengra síðan en í október að Michael Caine lýsti því yfir opinberlega að hann væri hættur að leika.

En er hann það virkilega eftir öll þessi ár? Hvað þyrfti til að draga hann fram fyrir tökuvél á nýjan leik?

„Það þyrfti að vera eitthvað algjörlega sérstakt og mér dettur nú bara ekkert í hug akkúrat núna,“ svarar Caine hreinskilnislega. „Ég er búinn að gera allt í kvikmyndum og ég get orðið varla gengið almennilega, ég verð 91 árs núna í mars og ég hef engan áhuga á því lengur að vakna klukkan hálfsjö á morgnana og læra mörg hundruð línur,“ játar hann með hlátri og lái honum hver sem vill.

Ungfrú Gvæjana 1967

„Ég vil sofa á morgnana, fara seinna á fætur. Ef eitthvað alveg sérstakt væri í boði hugsaði ég kannski málið. Núna er ég að skrifa, ég er að vinna að framhaldinu af fyrstu skáldsögunni minni, Deadly Game,“ heldur hann áfram, „mig langar í rauninni ekkert að fara aftur að leika, mig langar að sitja og horfa á sjónvarpið,“ segir leikarinn sem einnig er afi og honum þykir ekki verra að geta nú varið meiri tíma með barnabörnunum.

„Ég tilbið barnabörnin mín, ég á þrjú, tvo drengi og stúlku,“ segir afinn frá. Heldur hann að þau fýsi að feta í fótspor afa síns?

„Ég veit að annar drengjanna mun ekki gera það, hins vegar er spurning með hinn, hann gæti hugsanlega gert það, en þau eru nú ekkert óskaplega upptekin af því eins og er,“ segir Michael Caine sem sigraði heiminn á hvíta tjaldinu eftir að hafa farið til blaðasala við Charing Cross Road í Lundúnum upp úr miðri síðustu öld til að kaupa sér eintak af tímaritinu The Stage og skoða atvinnuauglýsingar eftir leikurum. „Þakka þér fyrir þetta og vertu blessaður,“ kveður leikarinn alúðlega með röddinni frægu og framburðinum.

„Hinkraðu aðeins, ég ætla að taka símann inni á skrifstofu,“ segir frúin, Shakira Caine, fædd Shakira Baksh í febrúar 1947 og viðtalið nánast tekið á 77 ára afmælisdaginn hennar. Rödd hennar virðist þó koma úr barka mun yngri konu.

Shakira lék í fáeinum kvikmyndum um og upp úr 1970 en er mun þekktari fyrir feril sinn sem fyrirsæta. Hún varð ungfrú Gvæjana árið 1967 og hafnaði í þriðja sæti í keppninni Ungfrú heimur sama ár. En hvernig stendur á kynnum þeirra Dorritar Moussaieff?

„Vinir okkar kynntu okkur fyrir öllum þessum árum og dóttir mín valdi sér hana sem guðmóður þegar hún var sex ára gömul. Þá hafði fyrri guðmóðir hennar látist og hún sagðist vilja að Dorrit tæki við og Dorrit er svo mikil barnagæla,“ segir Shakira með augljósri hlýju í röddinni og er í framhaldinu spurð hvernig kynni þeirra eiginmannsins hafi þá stofnast.

Kaffiauglýsingin örlagaríka

„Það var þannig að ég deildi íbúð við Fulton Road [í London] með vinum mínum og einn daginn fékk ég símtal,“ rifjar hún upp, „og það var hann. Mig minnir að hann hafi hringt ellefu sinnum og boðið mér út, en kannski var það bara fimm sinnum, en þá sagði ég líka já, svo einfalt var það,“ segir Shakira sposk.

Sjálfur svipti Caine hulunni af því í sjálfsævisögu sinni hvernig hann uppgötvaði konuna sína núverandi. Hann var að horfa á sjónvarpið með vini sínum árið 1971 og í auglýsingahléi birtist auglýsing frá kaffiframleiðandanum Maxwell House þar sem Shakira sást dansandi í bakgrunninum. Caine féll gjörsamlega í stafi, eins og hann lýsir í sögunni, og tókst með aðstoð kunningja í auglýsingabransanum að útvega sér símanúmer konunnar sem hann gekk að eiga 8. janúar 1973.

„Ég þakka guði fyrir að við eigum hvort annað. Hann hefur svo ríkulegt skopskyn,“ segir fegurðardrottning sjöunda áratugarins með silkimjúkri rödd sinni, „hvað hefði mér ekki átt að líka við í fari hans? Það var ást við fyrstu sýn þegar við hittumst,“ segir hún frá.

Hvernig var sú upplifun að yfirgefa þitt heimaland og flytja í svo ólíkan menningarheim sem London um tvítugt?

„Mig langaði að fara að heiman og hugurinn leitaði til Bretlands. Vinnuveitandi minn á þessum tíma hvatti mig til að taka þátt í fegurðarsamkeppninni og þannig leiddi eitt af öðru,“ útskýrir Shakira, „við sem lentum í þremur efstu sætunum fengum allar tilboð um störf í London.“

Því hefur sést fleygt á lýðnetinu – sem sumu lýgur og öðru ekki – að Shakira hafi leikið lítið hlutverk í James Bond-myndinni On Her Majesty's Secret Service árið 1969, þar sem Ástralinn George Lazenby átti stysta feril allra Bond-leikara fram til þessa – eina mynd.

Viðtalið í heild sinni má lesa í Morgunblaðinu á laugardag, 30. mars.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert