„Ég þénaði tíu pund á viku“

Michael og Shakira Caine ræða við Morgunblaðið í dag og …
Michael og Shakira Caine ræða við Morgunblaðið í dag og segja af lífi sínu. „Og þar fann ég mitt fyrsta starf sem fólst í því að ég fékk að leika hlutverk í leikriti einu sinni í viku,“ rifjar stórleikarinn upp af því þegar hann fékk fyrsta leikarastarfið gegnum auglýsingu í tímaritinu The Stage. Ljósmynd/Aðsend

„Já, þetta er ég,“ segir hæglát rödd og kunnugleg, þótt ekki sé örgrannt um að cockney-hreimurinn svokallaði, gamall og rótgróinn einkennisframburður hinna vinnandi stétta í Austur-London, sé jafnvel kunnuglegri en sjálf röddin.

Þannig hófst samtalið sem fæddi af sér þetta viðtal eftir að sími blaðamanns glumdi eitt vetrargrátt miðvikudagssíðdegi í Noregi í ofanverðum febrúarmánuði. Hringt úr leyninúmeri að sjálfsögðu, enda skiljanlegt að níræðir stórleikarar með hátt í tvö hundruð kvikmyndir á ferlinum kjósi að eiga sitt ævikvöld í friði og spekt eftir viðburðaríkt líf.

Í símanum er maður sem eitt sinn hét Maurice Joseph Micklewhite, því nafni var hann alltént skírður á útmánuðum ársins 1933 þegar hann fæddist. Áratugum síðar kynntist heimsbyggðin honum undir styttra nafni og kannski öllu þjálla því þetta er enginn annar en goðsögnin Michael Caine sem gefur blaðamanni af örlæti næstu 23 mínúturnar af tíma sínum – og þau hjónin bæði raunar, því eiginkonan, hin indversk-gvæjanska Shakira Caine, fyrrverandi leikkona og heimsþekkt fyrirsæta, telur ekki eftir sér að segja Morgunblaðinu örlítið af sjálfri sér líka – og sambandi þeirra hjóna.

Barðist í Kóreustríðinu

Séra Matthías Jochumsson kallaði Byron lávarð „Bretatröllið“ í einu kvæða sinna. Blaðamanni finnst Michael Caine einhvern veginn verðskulda nafnbótina betur – en þeir skáldið frá Þorskafirði voru auðvitað ekki samtímamenn, þótt litlu munaði, svo Matthíasi er fyrirgefið. Hvað á maður þá eiginlega að segja við tröll af kyni Breta í viðtölum?

Blaðamaður hefur ekki átt orðastað við heimsfræga leikara áður þótt hann hafi rætt við einn leikara norsku sjónvarpsþáttanna Exit um íslenska lopapeysu sem hann skartaði í einum þáttanna, og Kristbjörgu Kjeld og Þröst Leó Gunnarsson um aðra hluti.

Í ABC-barnablöðunum á níunda áratugnum mátti gjarnan lesa um hver uppáhaldslitur heimsfrægs tón- eða leiklistarfólks væri og hvað gæludýrin þeirra hétu. Nei takk, ég hlífi Michael Caine við því. Svo við byrjum bara á því hvernig þetta hófst allt saman hjá tvöföldum Óskarsverðlaunahafa – og þá eru allmörg önnur verðlaun ótalin.

„Ég gerðist leikari eftir að ég hafði unnið í verksmiðju við að lesta vörubíla með matvöru,“ svarar Caine, talandinn hægur og skýr. Hér fer lunkinn frásagnamaður og honum liggur ekkert á. „Við þetta vann ég með 75 ára gömlum manni. Sjálfur var ég tvítugur og nýkominn úr hernum og vinur minn einn spurði mig hvað ungur maður í fínu formi væri að vilja í svona starfi,“ rifjar Caine upp, en þótt það hljómi ótrúlega barðist hann í Kóreustríðinu. Meira um það hér á eftir.

Breski njósnarinn Harry Palmer í túlkun Caine í kvikmyndinni The …
Breski njósnarinn Harry Palmer í túlkun Caine í kvikmyndinni The Ipcress File frá 1965. Kvikmyndirnar á ferlinum eru hátt í 200 og eru þá leikritin ótalin. Ljósmynd/The Rank Organisation

Hafði ekki efni á RADA

„„Mig langar að verða leikari,“ sagði ég vininum og hann benti mér þá á að fara til blaðasalans á Charing Cross Road og kaupa mér eintak af tímaritinu The Stage, aftast í því væru auglýsingar þeirra sem leituðu að leikurum og sviðsstjórum. Og þar fann ég mitt fyrsta starf sem fólst í því að ég fékk að leika hlutverk í leikriti einu sinni í viku,“ segir leikarinn frá upphafi ferilsins á sjötta áratugnum.

Í níu ár var hann leikari í íhlaupavinnu og því fylgdi auðvitað heilmikill lærdómur. „Þar lærði ég að leika. Ég hafði ekki efni á að fara í RADA [hinn kunna leiklistarskóla Royal Academy of Dramatic Art], ég þénaði tíu pund á viku og greiddi tvö pund fyrir herbergi með máltíð,“ segir Caine af löngu horfnum tíma – en ekki gleymdum.

Auk þess að leika smáhlutverk og draga þannig fram lífið í heimi gallharðrar samkeppni fékk hann annað veifið starf sem sviðsstjóri og bar þá ábyrgð á ýmsum þáttum við framkvæmd leikrita sem ekki blöstu endilega við áhorfendum í sal. „Þetta fannst mér alveg frábært að komast í, ég sá til dæmis um að panta matinn fyrir leikhúsið og þá pantaði ég auðvitað einn aukaskammt fyrir sjálfan mig. Þannig mátti spara aurinn,“ segir Michael Caine kankvís. Hver stórferill á sér byrjun og hún er kannski ekki alltaf stór.

Og talandi um byrjun ferilsins. Blaðamaður kannast svo sem við söguna af því hvernig ungi leikarinn og fyrrverandi hermaðurinn frá Southwark í Lundúnum tók sér það nafn sem heimsbyggðinni er svo tamt á tungu. Fyrsta sviðsnafnið hans var raunar Michael White, byggt á hans raunverulega eftirnafni Mickelwhite.

Ýtni umboðsmaðurinn sem vildi nafn

„Ég var Michael White í níu ár í íhlaupavinnunni en þegar ég fékk umboðsmann sagði hann mér að nú yrði ég að ganga í stéttarfélag leikara og þar væri fyrir annar Michael White. Umboðsmaðurinn sagðist mundu útvega mér hlutverk en ég yrði að skipta um nafn,“ segir Caine og hér þurfti að taka ákvörðun í skyndi.

Hann leigði herbergi í London en því fylgdi enginn sími. Til þess að ráðgast við umboðsmann sinn fór hann því jafnan í símaklefa við hið nafntogaða Leicester-torg, hálfgerða bíómiðstöð bresku höfuðborgarinnar, og hringdi þaðan.

„Ég þarf að fá nafn núna, þú mátt alveg heita Michael en White verður að fara,“ rifjar Caine upp samtalið við umboðsmanninn, kröfuharða konu, þar sem hann stóð í símaklefa í mannmergð torgsins og átti að fara að velja sér nýtt nafn. „Svo ég lít þarna í kringum mig og sé að Odeon-kvikmyndahúsið er að sýna The Caine Mutiny með Humphrey Bogart sem var uppáhaldsleikarinn minn á þessum tíma svo ég segi bara við hana „Michael Caine“,“ segir hann af tilurð ódauðlegs nafns leiklistarheimsins í símaklefa við Leicester-torg.

Þar með er nafnið komið. Hvað með cockney-framburðinn góða, vörumerkið? Blaðamaður spyr Caine hvort ferill hans hefði ef til vill orðið allt annar með annars konar breskum framburði.

„Nei nei, það hefði engu skipt, ég var leikari lausamennsku í níu ár svo ég gat talað með öllum andskotans framburðum,“ svarar Caine að bragði og notar að sjálfsögðu hið einstaka og rammbreska orðalag „I could do every bloody accent!“ svo undir tekur í símtæki blaðamanns. Bjánaspurning viðtalsins greinilega komin fram – þurfti ekki uppáhaldslitinn til. Jæja.

Léki engan sem honum félli ekki

„Ég fékk Óskarsverðlaun fyrir að leika Bandaríkjamann í Bandaríkjunum svo framburður er ekkert vandamál,“ bætir Caine við og á þar við hlutverk hans sem læknirinn vingjarnlegi dr. Wilbur Larch í The Cider House Rules sem faldi hvort tveggja eterfíkn og óhugnanlegt leyndarmál sem fólst í því að losa ungar mæður við afkvæmi sem þær vildu ekki.

Þrátt fyrir að hafa hlotið hina nafntoguðu gullnu verðlaunastyttu fyrir hlutverk læknisins er dr. Larch engan veginn uppáhaldspersóna alls þess fjölda fólks sem Caine hefur túlkað á sviði sem tjaldi um sína daga. Inntur eftir uppáhaldinu sínu svarar hann umhugsunarlaust „Alfie“ og vísar til flagarans og kvennabósans í samnefndri kvikmynd frá 1966 sem á efsta degi fékk að bragða á beiskum eigin meðölum.

„Þetta var fyrsta aðalhlutverkið mitt og fyrsta Óskarsverðlaunatilnefningin mín,“ segir leikarinn margreyndi og röddin tekur um stund á sig dreyminn blæ. Hins vegar er engin hans fjölmörgu persóna í ónáð hjá honum. „Nei, alls ekki, ég léki aldrei persónu sem mér félli ekki við,“ segir Caine ákveðinn.

Lesa má viðtalið við Michael Caine í heild sinni í blaði dagsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka