Brekkan var lækkuð og beygjan lagfærð

Fjöldi viðbragðsaðila mætti á vettvang á laugardaginn.
Fjöldi viðbragðsaðila mætti á vettvang á laugardaginn. Ljósmynd/Aðsend

Vegakaflinn þar sem rúta valt á Rangárvallavegi á laugardaginn með um 30 manns um borð var lagfærður fyrir nokkrum árum síðan.

Lagaður var um 200 metra kafli, brekka lækkuð til að minnka brattann og beygja utan í hlíð lagfærð til að hún yrði ekki eins kröpp.

Þetta segir Svanur Bjarnason, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á suðursvæði, aðspurður. Hann segist ekki vita til þess að önnur umferðaróhöpp hafi orðið þar síðustu ár, að minnsta kosti ekkert eins alvarleg og á laugardaginn.

Rannsóknarnefnd rannsakar tildrög

Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakar tildrög slyssins en fyrr í vikunni sagðist Vegagerðin ekki telja að vegurinn hefði gefið sig undan rútunni. „Við getum ekki séð að vegurinn hafi gefið sig. Það er ekki fyrr en rútan er komin út fyrir vegyfirborðið sem hún fer að sökkva eitthvað í fláann,” greinir Svanur frá.

Svanur Bjarnason, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á suðursvæði.
Svanur Bjarnason, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á suðursvæði. mbl.is/Sigurður Bogi

Hann nefnir að rútan hafi verið á leiðinni upp brekkuna, sem er í um 4 til 10% halla, þegar slysið varð. Vegfláinn niður hafi verið nokkuð brattur.

Þörf á frekari lagfæringum

Spurður segir Svanur að þrátt fyrir lagfæringuna fyrir nokkrum árum þyrfti að laga vegakaflann enn meira. Breikka þyrfti veginn og laga blindhæðina sem þar er. Til þess þyrfti að skera veginn niður og grafa inn í hlíðina. Yrði Vegagerðin að fá sérstök leyfi fyrir því vegna umhverfisáhrifa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert