„Hann er í gríðarlegu sjokki“

Frá vettvangi slyssins.
Frá vettvangi slyssins. Ljósmynd/Jónas

Rútufyrirtækið Guðmundur Tyrfingsson hyggst skoða hvort breyta þurfi ferðum sem búið er að skipuleggja með hliðsjón af slysinu sem varð á Rangárvallavegi um helgina þar sem rúta með 26 farþegum valt.

Það sé þó snúið að banna ferðir á vegum fyrirtækisins um vegi sem sagðir eru þola umferð stórra ökutækja.

Þetta segir Tyrfingur Guðmundsson, eigandi og framkvæmdastjóri rútufyrirtækisins.

Tyrfingur Guðmundsson
Tyrfingur Guðmundsson mbl.is/Sigurður Bogi

Slys sem tekur á alla

Sjö voru fluttir með þyrlum Landhelgisgæslunnar á Landspítalann eftir slysið. Þá voru aðrir fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi.

„Hann er í gríðarlegu sjokki en lítið slasaður,“ segir Tyrfingur, spurður um líðan bílstjórans sem var eini starfsmaður fyrirtækisins um borð.

„Þetta er agalegt slys og tekur á alla, mest þó hjá þeim sem lenda í því. Hugur okkar er hjá þeim,“ bætir hann við.

Rútan nánast stopp

Lögreglan á Suðurlandi sagði í gær ummerki um að vegurinn hefði að hluta gefið sig. Vegurinn væri nýheflaður og mjúkur. Starfsmenn Vegagerðarinnar töldu aftur á móti að vegurinn hefði ekki gefið sig. 

„Mér skilst að [rútan] hafi verið nánast stopp útaf því að hún var nánast föst í kantinum,“ segir Tyrfingur, spurður um tildrög slyssins. 

Teljið þið eitthvað við Vegagerðina að sakast?

„Það er voðalega erfitt að segja. Eru ekki flestir sveitavegirnir okkar svona? Þeir eru bara hættulegir og varla fyrir stóra bíla. Það mætti merkja þá og liggur við ekki hleypa stórum bílum um þessa vegi að okkar mati. Þetta er bara svona á Íslandi.“

Stanslaust að íhuga og uppfæra

Eruð þið að íhuga að gera einhverjar breytingar hjá ykkur?

„Við erum stanslaust að íhuga og uppfæra, já. Við munum skoða það, hvað verður hægt að gera í því.“

Mögulega gera þá breytingar á fyrirhuguðum ferðum?

„Við skoðum það klárlega en það er voðalega erfitt ef vegirnir eru sagðir bjóða upp á þetta – að segja að maður vilji ekki fara þá. Þetta er smá snúin staða að því leytinu til.“ 

Myndi það hjálpa við ákvarðanatöku, þ.e. hvort keyra eigi um ákveðna sveitavegi eður ei, ef það væri skýrara hvort óhætt væri að fara þá á stórum ökutækjum.

Stór hluti vega á Íslandi flokkist þó undir þá lýsingu og væri því mikið verk fyrir höndum ef ráðast ætti í slíka kortlagningu.

„Ég er ekki viss um að það verði einhvern tíman þó það myndi hjálpa gríðarlega að kortleggja þetta betur og vera með einhverjar leiðbeiningar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert