Ummerki á vegi gefa vísbendingar um orsök

Gríðarlegur fjöldi sjúkrafluttnignabíla var sendur á vettvang, bæði frá Brunavörnum …
Gríðarlegur fjöldi sjúkrafluttnignabíla var sendur á vettvang, bæði frá Brunavörnum Árnessýslu og slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. Ljósmynd/Aðsend

Ummerki á Rangárvallavegi á vettvangi rútuslyss gefa ákveðnar vísbendingar um það hvað olli slysinu í gær. Bíl­stjór­inn og all­ir 26 farþegar rút­unn­ar voru Íslend­ing­ar og hver ein­asti þeirra var flutt­ur slasaður á sjúkra­hús.

„Núna er staðan sú að það er verið að safna saman skýrslum og gögnum. Svo eru skýrslutökur fram undan í dag, á morgun og út vikuna væntanlega. Þetta er mikið af fólki,“ segir Jón Gunn­ar Þór­halls­son, yf­ir­lög­regluþjónn á Suður­landi, í sam­tali við mbl.is

Hann segir að möguleiki sé á því að rætt verði við rútubílstjórann í dag.

Ummerki á vettvangi

Vitum við hvað olli slysinu?

„Nei en það eru náttúrulega ummerki á vettvangi sem að sýna það nokkurn veginn, en það er ekkert sem við gefum út enn þá. Það á eftir að fá staðfest og svoleiðis, svo fer allt rannsóknarferlið í gegn,“ segir hann.

Ummerki á vegi gefa þá ákveðnar vísbendingar?

„Já,“ segir hann.

Eins og að vera í þvottavél

Enginn lést í slysinu, en eins og fyrr segir, þá voru allir slasaðir og fluttir á sjúkrahús. Hann kveðst ekki hafa upplýsingar um líðan fólks að svo stöddu en síðast þegar hann vissi þá var ástand fólks stöðugt.

Jón segir að svo virðist vera sem að rútan hafi oltið einn heilan hring en bætir því við að það sé ekki alveg staðfest. Það er þekkt fyrirbæri að fólk sé með ekki með spenntar sætisólar í svona rútum og var Jón því spurður hvort slíkt hafi verið upp á teningnum núna og hvort að fólk hafi hreinlega hvolfst í rútunni.

„Það sem hjálpar þarna er mjúkt undirlag, það er þarna mói. Þannig það er alveg að hjálpa en í svona veltum þá verður þetta að þvottavél í svona stórum rútum,“ segir hann.

Var fólkið þá ekki belti?

„Það getur verið allur gangur á því og við vitum það ekki fyrr en við ræðum við alla og skoðum rútuna,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert