Bara Íslendingar í rútunni: Allir slasaðir

Þyrla Landhelgisgæslunnar á vettvangi í dag.
Þyrla Landhelgisgæslunnar á vettvangi í dag. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Allir þeir 27 sem slösuðust í rútuslysi á Suðurlandi í dag eru Íslendingar. Áverkar á fólki eru mismunandi en einhverjir eru „meiriháttar“ að sögn lögreglu.

Rút­an valt á Rangár­valla­vegi ná­lægt Stokka­læk skömmu ­fyr­ir kl. 17 í dag. Um 20-30 manns voru í rút­unni.

Hver einasti um borð var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar, ýmist á Landsspítalann, Heilsugæsluna á Hellu eða Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

Þetta staðfestir Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.

„Núna er bara verið að fara yfir og greina meiðsli. Við vitum ekki stöðu slasaðra. Þannig að þetta á eftir að skýra sig betur,“ segir Jón.  „Þetta eru allt frá því að vera minniháttar yfir í meiriháttar.“

Tvær þyrl­ur Land­helg­is­gæsl­unn­ar voru ræst­ar út. Fyrri þyrlan flutti þrjá …
Tvær þyrl­ur Land­helg­is­gæsl­unn­ar voru ræst­ar út. Fyrri þyrlan flutti þrjá á Fossvogsspítala og hin flutti fjóra. Þyrla verður ekki send aftur á vettvang. Ljósmynd/Aðsend

Staða slasaðra óljós

Tvær þyrl­ur Land­helg­is­gæsl­unn­ar voru ræst­ar út. Fyrri þyrlan flutti þrjá á Fossvogsspítala og hin flutti fjóra. Þyrla verður ekki send aftur á vettvang. Sjö voru fluttir á Fossvogsspítala með tveimur þyrlum.

Rútan er í eigu rútufyrirtækisins GTS, Guðmunds Tyrfingssonar. Lögreglan á Suðurlandi greinir frá því á Facebook að farþegarnir hafi verið 26 talsins auk ökumanns.

Aðstæður voru metnar með þeim hætti að hópslysaáætlun var virkjuð, sem og samhæfingarstöð almannavarna í Skógarhlíð.

Gríðarlegur fjöldi sjúkraflutningabíla var einnig sendur á vettvang, bæði frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu og Brunavörnum árnessýslu.

Lögreglan á Suðurlandi rannsakar

Ekki liggur fyrir með hvað hætti slysið varð en lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn þess.

Jón Gunnar vildi ekki svara því hvort einhver væri alvarlega slasaður eða úrskurðaður látinn á vettvangi.

Hjálparsíminn 1717 veitir sálrænan stuðning til þeirra sem þess óska. Opnað hefur verið söfnunarsvæði aðstandenda í húsnæði Árnesdeildar RKÍ að Eyrarvegi 23 Selfossi einnig.

Fjöldi slasaðra hefur verið uppfærður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert